Andlát einstaklinga 70 ára og eldri voru óvenju mörg í mars, apríl og maí á þessu ári miðað við árin 2012–2019. Þetta kemur fram á vef Embættis landlæknis.

Þar segir einnig að í sama aldurshópi hafi dauðsföll verið óvenju fá á tímabilinu júní til ágúst árið 2020 og í janúar, febrúar, mars, september og október á síðasta ári.

Líklegt þykir að sóttvarnaaðgerðir sem voru við lýði á þessum tímabilum hafi verndað fólk, eldra en 70 ára, því ekki hafi einungis verið lítið um Covid-smit í aldurshópnum heldur hafi sýkingum almennt fækkað mikið á þessum tíma.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tíðni dauðsfalla ekki einungis sýna áhrif Covid hér á landi.

„Við vitum að það var óvenju lítið um aðrar sýkingar á þessum tímabilum á þessum árum, sennilega út af þeim ráðstöfunum sem voru í gangi,“ segir hann.

„Það var lögð sérstök áhersla á að verja þennan aldurshóp og þess vegna tókst okkur öllum í sameiningu að koma í veg fyrir andlát í þessum hópi,“ bætir Þórólfur við. „Við getum ekki fullyrt að það sé út af Covid eða einhverju öðru sem dauðsföllunum fækkar eða fjölgar, en við höfum líka séð á dánarvottorðunum frá upphafi faraldursins að þá er Covid tilgreint sem sjúkdómur sem fólk lést af.

Þá varð fólk veikara og lagðist inn á sjúkrahús með Covid, fékk svæsna lungnabólgu og lést af þeim völdum,“ segir Þórólfur.

Rúmlega tvö hundruð dauðsföll hafa verið skráð hér á landi frá upphafi faraldursins sem dauðsföll af völdum Covid.

„Í þeim tilfellum getum við sagt að Covid hafi verið aðal orsakavaldurinn eða að Covid hafi hugsanlega verið það sem átti í þátt í andlátinu á einhvern máta, sama hvort það var stór þáttur eða lítill þáttur.“

Þórólfur segir að þegar dánartíðnin minnki á ákveðnum tímabilum, líkt og gerðist í júní, júlí og ágúst mánuði árið 2020, megi búast við hærri dánartíðni á öðrum tímabilum. „Fólk deyr einhvern tímann og ef að við fáum fækkun á dauðsföllum á einum tímapunkti þá er líklegt að við fáum fjölgun seinna,“ segir Þórólfur.