Alþjóðlegir rannsakendur segja að allar vísbendingar bendi til þess að Vladímír Pútín hafi útvegað eldflaugina sem grandaði flugvél Malaysian Airlines númer MH17 árið 2014.

Farþegaflugvélin var á leið frá Amsterdam til Kúala Lúmpúr með 300 farþega um borð þegar hún var skotin niður af aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu.

Saksóknarar í málinu segjast búa yfir sönnunargögnum þess efnis að Pútín hafi útvegað skæruliðunum vopnin en ekkert bendi til þess að Rússar hafi skipað þeim að granda flugvélinni.

Rannsakendur greina frá símaupptökum á milli rússneskra embættismanna og skæruliða í Donbas-héraðinu þar sem þeim er sagt að ákvörðun um vopnaveitingu liggi fyrir hjá forseta landsins. Þeir segja einnig að beiðni þeirra um háþróuð vopn hafi verið samþykkt af Pútín.

Teymið hafði vonast til að geta borið kennsl á mennina sem sáu um að skjóta eldflauginni sjálfri en viðurkenndu að það væri ómögulegt að svo stöddu.

Rannsóknarteymið samanstendur af fólki frá Hollandi, Ástralíu, Belgíu, Malasíu og Úkraínu, en það voru þegnar þessara landa sem urðu verst úti þegar flugvélin var skotin niður.