Auknar tilfæringar ólöglegs fjármagns yfir í rafeyri eykur álag á ýmsum sviðum löggæslunnar. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, segir þessa þróun kalla á sérhæfðari starfsmenn innan lögregluembætta.

Grímur flutti erindi á ráðstefnu Seðlabanka Íslands um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem fór fram á Grand hóteli í gær.

Á ráðstefnunni var fjallað um sjónarmið eftirlitsaðila og löggæslunnar hvað þessi mál varðar auk þess sem fjallað var um fyrirhugaðar breytingar á regluverki Evrópusambandsins.

Fyrirlesarar voru erlendir og innlendir sérfræðingar á sviði varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Í erindi sínu sagði Grímur að rúmlega 80 prósent glæpahópa á Íslandi ættu þátt í að flytja inn, framleiða eða selja fíkniefni. Glæpahópar feli svo ágóðann af fíkniefnasölunni í löglegum rekstri.

„Reiðufé ræður enn ríkjum, sérstaklega þegar kemur að fíkniefnum og vændi,“ útskýrir Grímur. Stærsti hluti peningaþvættis á Íslandi fer í gegnum í byggingar- og veitingahúsaiðnaðinn en lögreglan hefur séð mikla aukningu í peningaþvætti í gegnum rafmynt.

Hlutfall sérfræðinga hefur aukist innan lögreglunnar. Grímur segir það jákvæða þróun en að stór verkefni haldi þó áfram að hlaðast upp innan miðlægu rannsóknardeildarinnar þar sem starfa 10 til 20 manns.

„Ég gæti verið með 40 starfsmenn, jafnvel 60, og það væri nóg að gera fyrir alla,“ segir Grímur en fjöldi verkefna bíður.

„Verkefni sem gætu orðið stór þegar upp er staðið.“

Lögreglan hefur ekki notað aðkeypta þjónustu en hefur síðustu misseri ráðið inn sérfræðinga.

„Mér finnst mikilvægt að við sækjum sérfræðiþekkinguna inn til okkar í staðinn fyrir að þjálfa lögregluþjóna til að vera hitt og þetta eins og var gert í gamla daga. Það er ekki í nútímanum hjá lögreglunni frekar en hjá öðrum stofnunum.“

Fyrirtæki hafa hýst ofurtölvur á Íslandi sem grafa eftir rafeyri eins og bitcoin og segir Grímur ekki ólíklegt að erlend glæpasamtök hýsi peningaþvætti á Íslandi.

„Töluvert mörg fyrirtæki hýsa síður á Íslandi en við höfum ekki lent í vandræðum varðandi peningaþvætti. Ég reikna með að menn fari yfir landamærin til að hýsa eitthvað en það getur vel verið að erlent peningaþvætti sé hýst á Íslandi.“

Skoða rafkrónu

Víða um heim eru seðlabankar að meta hvort þeir eigi í framtíðinni að gefa út rafmynt. Seðlabanki Íslands hefur kannað möguleikann á að setja á laggirnar svokallaða rafkrónu en Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri segir enn langt í land.

„Það er í rauninni ekki búið að leysa þetta sem stýritæki. Sömuleiðis þyrfti að skapa lagaumgjörð í kringum myntina,“ segir Unnur.

Grímur bendir á að rétt eins og glæpahópar hafa fundið leiðir til að þvætta peninga í núverandi umhverfi gætu þeir einnig fundið glufur með rafmynt.„Það verður að mínu mati aldrei hægt að útrýma peningaþvætti algjörlega.“

Unnur Gunnarsdóttir stýrir Fjármálaeftirlitinu.