Andapollurinn í Árbæ var í morgun tæmdur til frambúðar. Starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur opnaði lokurnar við Árbæjarstíflu klukkan 9 og var þannig komið á náttúrulegu rennsli í gegnum stífluna.

Belinda Eir Engilbertsdóttir, sérfræðingur lóða og lendna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir þetta gert með hagsmuni lífríkisins að leiðarljósi.

„Leyfum lífríkinu að ráða“

„Fiskar hafa ekki getað gengið upp þennan hluta en þeir komust ekki í gegnum lokurnar. Það þarf að gera það þannig að fiskurinn geti komist upp á brúnina. Hingað til hefur hann verið fastur en það eru grindur í ánni, bæði að ofan og neðanverðu, þannig að fiskurinn gat ekki gengið upp þessa kvísl. Nú verður óheft flæði og við leyfum lífríkinu að ráða,“ segir Belinda en næsta skref verður að bera fræslægju á svæðið þar sem lónið var.

„Það er mikill fræbanki á bökkunum í gróðrinum og við munum slá hann og dreifa yfir svæðið þar sem lónið var. Þannig fær jarðvegurinn tíma til að jafna sig og við getum flýtt fyrir að gróðurinn taki sig upp á þessu svæði,“ segir Belinda.

Lokurnar inni í stíflunni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Líklegt að álftaparið verði áfram

Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdalnum, þar verpa tæplega 30 fuglategundir og eiga sumar sér fasta aðdáendur, eins og álftaparið sem verpir ár hvert í Blásteinshólma ofan stíflunnar.

Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, skrifaði umsögn um áhrif tæmingar lóns við Árbæjarstíflu á fuglalíf fyrir Orkuveituna. Hann telur líklegt að álftaparið verði áfram á sínum stað og að fuglalíf almennt ætti að verða nær ósnortið af breytingunni. Fuglar af lóninu muni leita upp með ánni og þeim fjölga á efsta svæðinu neðan Elliðavatnsstíflu.

„Þetta mun ekki hafa veruleg áhrif á fuglastofninn,“ segir Arnór.

Viðra hugmyndir um tjörn

Búast má við að íbúar og fólk sem leitar í Elliðaárdalinn muni sakna lónsins og fuglanna en líklegt er að öndum muni fækka nokkuð og þær leita annað, sérstaklega ef dregur úr brauðgjöfum þegar lónið hverfur.

Arnór leggur til að koma til móts við fólkið með því að reisa smá upphækkun meðfram árbakkanum og mynda þannig litla tjörn.

Belinda Eir hjá Orkuveitunni fundaði í gær með Reykjavíkurborg um tillögu Arnórs. „Við viljum fá að heyra frá borginni og íbúum áður en við tökum ákvörðun,“ segir Belinda.

Tillaga Arnórs: Tjörnin myndi ná yfir hluta af núverandi botni lónsins þannig að ekki er verið að skerða bakkagróður eða votlendi á bakka lónsins.