Eldur sem kviknaði í Laugalækjarskóla í nótt er að öllum líkindum orsök íkveikju. Eldurinn kviknaði í klæðningu í tengibyggingu í húsinu og breiddi úr sér upp og í þak hússins. Slökkvilið lauk slökkvistarfi á fimmta tímanum í morgun en allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna eldsins. 

„Í þessu tilfelli kviknaði að utan í klæðningu svo það er nær víst að þetta sé íkveikja,“ segir Eyþór Leifsson, varðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Búið að slökkva eldinn í klæðningu Laugalækjarskóla

Skólastarf mun fara fram með eðilegum hætti í Laugalækjaskóla í dag, að undanskyldu bókasafninu sem verður lokað. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu skólans er enn sterk reykjarlykt inni á bókasafninu vegna nálægðar við eldinn.  

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið.