Heildar­fjöldi smita í seinni bylgju Co­vid-19 hér á landi næstu þrjár vikur er lík­legur til að verða um 150, sam­kvæmt nýju spá­líkani sem vísinda­menn frá Há­skóla Ís­lands, em­bætti land­læknis og Land­spítala gera saman. Þetta er fyrsta spá­líkan sem gefið er út frá því að fyrri bylgju far­aldursins lauk en það var unnið að beiðni sótt­varna­læknis.

Svörtu punktarnir sýna raunverulegan fjölda smita en spáin er sýnd með misbláum svæðum. Dekksta spábilið er reiknað svo að 50% líkur séu á það innihaldi rétt gildi, 60% líkur fyrir það næst dekksta og önnur spábilin miða við 70%, 80%, 90% og 95% líkur.
Háskóli Íslands

Í versta falli er talið að upp­safnaður fjöldi smita gæti farið upp í 300 á næstu þremur vikum en það eru tals­vert færri smit en greindust á landinu í þeirri fyrri. Alls hafa nú 116 innan­lands­smit greinst frá því að seinni bylgjan hófst þann 23. júlí. Til saman­burðar greindust rúm­lega 1800 smit og því ljóst að önnur bylgjan er nú talin mun minni en sú fyrri þó að upp­haf þeirra hafi verið nokkuð svipað.

Gripu fyrr til harðari aðgerða

Þegar fyrri og seinni bylgja eru bornar saman kemur í ljós, sem fyrr segir, að upp­haf þeirra líkist að mörgu leyti. Mun harðari sam­komu­tak­mörkunum var þó komið á í seinni­bylgjunni og fyrr en í þeirri fyrri. Þannig voru ekki settar á sam­komu­tak­markanir fyrr en 16. mars í fyrri bylgjunni, á tólfta degi frá því að fyrsta innan­lands­smitið greindist. Þá miðuðust þær við 500 manns. Nú, í seinni bylgjunni, var komið á 100 manna sam­komu­tak­mörkunum á áttunda degi frá því að fyrsta smit hennar greindist.

Hér eru fyrri og seinni bylgja bornar saman. Eins og sjá má var gripið mun fyrr til hertra sam­komu­tak­markana nú í seinni­bylgjunni og þá þarf einnig að hafa í huga að þegar fyrsta smit hennar greindist voru 500 manna sam­komu­tak­markanir í gildi.
Háskóli Íslands

Í grein sem birtist með spá­líkaninu nú segir ljóst að mikil ó­vissa ríki enn um seinni bylgju far­aldursins. Fjöldi sem greinist með smit sveiflast milli daga og segir að spá fyrir næstu þrjár vikur endur­spegli það. Því er talið lík­legt að dag­legur fjöldi ný­greindra smita verði á milli 0 til 5 næstu vikur en gæti orðið hátt í 12 þó að minni líkur séu á því.

Þá segir að ekki sé talið tíma­bært að spá fyrir um fjölda spítala­inn­lagna á þessum tíma­punkti. „Við munum á­fram vakta á­standið og ef gögnin benda til hraðari vaxtar þá verður þörfin á spá fyrir spítala­inn­lagnir endur­metin.“ Spáin verður þá upp­færð eftir viku.

Uppfært 16. ágúst:

Upprunalega stóð í fyrirsögn að líklega myndu rúmlega 30 greinast með veiruna við viðbótar. Það var rangt. Líklegasta sviðsmynd samkvæmt spálíkaninu gerir ráð fyrir að 150 smit greinist í viðbót á næstu þremur vikum.