Í svari Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, við fyrirspurn Ástu Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins, um fjölda og heildarfjárhæð útistandandi fasteigna- og neytendalána, sem birt hefur verið á vef Alþingis, kemur fram að heildarskuldir heimila með veði í íbúðarhúsnæði námu í september 2.158,9 milljörðum króna.

Óverðtryggð lán eru meirihluti lánanna, 1.117,5 milljarðar, en verðtryggð veðlán nema 1.041,4 milljörðum. Nánast engin lán eru gengisbundin, eða sem nemur 50 milljónum króna.

Aðrar skuldir heimilanna nema 502,9 milljörðum og þar af nema verðtryggð lán 284,8 milljörðum og óverðtryggð lán 121,5 milljörðum. Íslensk heimili skulda 84,6 milljarða í yfirdrátt í bönkunum en vextir af slíkum lánum eru nú 9,75 prósent. Nær engin yfirdráttarlán, eða samtals um 20 milljónir, eru gengisbundin en gengisbundin lán heimila án veðtryggingar í íbúðarhúsnæði nema 2,3 milljörðum.

Yfirgnæfandi meirihluti lántakenda bæði verðtryggðra og óverðtryggðra veðlána velur jafngreiðslulán fremur en lán með jöfnum afborgunum. Stafar það án efa af því að greiðslubyrði jafngreiðslulána er lægri í upphafi lánstímans en greiðslubyrði lána með jöfnum afborgunum af höfuðstól.

Greiningardeildir búast við að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína um 0,75 prósent í næstu viku. Slík hækkun kostar heimilin í landinu með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum alls um 6 milljarða á ári, velti bankarnir henni allri til lántakenda.