Þingmenn Miðflokksins, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson líkja Alþingi við öryggislögreglu í ógnarstjórnarríkjum í andsvörum þeirra við áliti siða­nefndar Alþingis sem þau sendu for­sætis­nefnd þann 26. júlí síðastliðinn.

Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að þingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason hafi brotið siðareglur með ummælum sínum á Klaustri en aðrir þingmenn sem tóku þátt í samræðunum, eru ekki taldir hafa brotið siðareglur.

„Af hálfu hlutaðeigandi var Alþingi Íslendinga í raun sett í sama hlutverk og öryggislögregla í ógnarstjórnarríkjum með því að reyna að finna í illa fenginni upptöku af einkasamtali tækifæri á að koma pólitísku höggi á andstæðinga,“ segir í athugasemd númer 8 í bréfi þingmannanna.

Þingmennirnir segjast vera þolendur alvarlegs glæps, en ekki gerendur, og að Alþingi hafi styðst við „umfjöllun fjandmanna“ og „fjölmiðlaumfjöllun andstæðinga“ þeirra í málarekstrinum.

Tala um hugsanaglæp

Í athugasemd númer ellefu er vitnað í 1984 eftir George Orwell og talað um hugsanaglæp. Þar stendur: „ Í áliti minni hluta siðanefndar er leitast við að ráðast í hugsanalestur, geta sér til um hvaða hugarfar hafi legið að baki sundurklipptum ummælum og meta hvort þær ímynduðu hugsanir teljist fela í sér hugsanaglæp. Varla þarf að hafa mörg orð um hversu fráleitt, ósanngjarnt og óhugnanlegt slíkt er,“ skrifar þingmennirnir.

Hvergi er minnst á túlkun eða hugsanlega merkingu orða umræddra þingmanna í áliti siðanefndar, heldur er einfaldlega notuð bein vitnun.

Alls birtu þau 24 athugasemdir um feril málsins sem má nálgast á vef Alþingis. Þau segja listann „ekki tæmandi.“