Hátt­settur em­bættis­maður Hvíta hússins, þjóðar­öryggis­ráð­gjafinn Robert O‘Brien, segir við­brögð Kína við CO­VID-19 heims­far­aldrinum líkjast við­brögðum Sovét­ríkjanna við Cher­n­obyl slysinu árið 1986 en O‘Brien hélt því fram að yfir­völd í Peking hafi logið um út­breiðslu kóróna­veirunnar.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið sagði O‘Brien að yfir­völd í Peking hafi vitað af út­breiðslu veirunnar frá því í nóvember en að þau hafi logið að Al­þjóða­heil­brigðis­stofnuninni (WHO) og neitað að veita utan­að­komandi sér­fræðingum að­gang að upp­lýsingum í tengslum við málið.

Von á HBO þætti um málið

O‘Brien sagði að fleiri billjónir dollara hefðu tapast í bar­áttunni við veiruna í Banda­ríkjunum. „Þetta er mjög raun­veru­legt vanda­mál og hefur kostað fleiri fleiri þúsund líf í Ameríku og heiminum því raun­veru­legar upp­lýsingar fengu ekki að koma fram,“ sagði O‘Brien við CBS um málið og sakaði Kína um að hylma yfir stöðuna.

„Yfir­hylming þeirra á veirunni verður minnst í sögu­bókunum, rétt eins og Cher­n­obyl. Við munum sjá HBO þátt um málið eftir tíu eða fimm­tán ár,“ sagði O‘Brien í við­tali við NBC og vísaði þar til sjón­varps­þáttanna um Cher­n­obyl slysið sem slógu í gegn í fyrra hjá HBO.

Saka Bandaríkin um að ráðast á Kína

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Banda­ríkin saka Kína um að hylma yfir raun­veru­legan vanda veirunnar en Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur áður haldið því fram að rekja megi út­breiðslu veirunnar til kín­verskrar rann­sóknar­stofu.

Þá sagði Trump fyrr í mánuðinum að CO­VID-19 væri verri árás á Banda­ríkin en á­rásin á Tví­bura­turnana og Pearl Harbor.

Kín­verjar hafa al­farið neitað á­sökunum Banda­ríkjanna og sakaði hátt­settur kín­verskur diplómati Banda­ríkin um að dreifa lygum og að ráðast á landið.