Mikil átök eru nú innan Repúblikana­flokksins vegna full­trúa­deildar­þing­mannsins Liz Chen­ey en þing­menn Repúblikana búa sig nú undir atkvæðagreiðslu um að Cheney verði svipt stöðu sinni sem þriðji hæst setti Repúblikaninn innan deildarinnar. Lík­legt er að þing­mennirnir muni greiða at­kvæði um málið síðar í vikunni.

Chen­ey hefur verið harð­lega gagn­rýnd af sam­flokks­mönnum sínum fyrir að standa ekki með Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, þegar hann var á­kærður til em­bættis­missis fyrr á árinu í tengslum við ó­eirðirnar í þing­húsinu þann 6. janúar síðast­liðinn. Chen­ey var ein af að­eins tíu þing­mönnum Repúblikana sem greiddu at­kvæði með því að Trump yrði á­kærður.

McCarthy snýr baki við Cheney

Kevin Mc­Cart­hy, leið­togi Repúblikana innan full­trúa­deildarinnar, hefur nú lýst yfir stuðningi við Elise Stefanik, full­trúa­deildar­þing­manns Repúblikana frá New York, til að taka við stöðunni en hann hafði áður stutt við Chen­ey. Í síðustu viku sagði hann aftur á móti að Chen­ey nyti ekki lengur stuðnings flokksins.

Flokkurinn hefur áður rætt um að svipta Chen­ey stöðu hennar en í febrúar greiddu 145 þing­menn at­kvæði gegn því, á móti 61 sem greiddu at­kvæði með því. Sjálf hefur Chen­ey lýst því yfir að hún muni ekki stíga til hliðar og hefur hvatt sam­flokks­menn sína til að fylgja ekki for­dæmi Trumps.

Vara við áhrifum Trumps

Nokkrir þing­menn Repúblikana eru þó al­farið á móti því að Chen­ey verði svipt stöðu sinni og er ó­hætt að segja að flokkurinn sé klofinn í tengslum við málið. Þing­maðurinn Adam Kinzin­ger gekk jafn­vel svo langt í við­tali við CBS í gær að líkja Repúblikana­flokknum við Titanic og sagði nauð­syn­legt að flokkurinn líti inn á við.

„Við erum að sökkva hægt og rólega. Við erum með hljómsveit spilandi á þilfarinu að segja öllum að það sé allt í góðu, á meðan Donald Trump hleypur um leitandi að kvenmannsfötum til að komast í fyrsta björgunarbát,“ sagði Kinzin­ger í sam­tali við Face the Nation í gær.

Þá beindi Kinzin­ger spjótum sínum að Mc­Cart­hy en hann sagði Mc­Cart­hy hafa sagt það ná­kvæm­lega sama og Chen­ey hefur verið að gera eftir ó­eirðirnar í janúar. „Hún hefur bara verið að segja það endur­tekið. Og nokkrum vikum síðar breyttist Mc­Cart­hy og á­kvað að ráðast á fólk.“

Aðrir úr röðum Repúblikana hafa einnig staðið með Cheney og varað við áhrifum Trumps á flokkinn.