Oddný Harðardóttir, fulltrúi þingminnihlutans í þjóðaröryggisráði, segir „óhjákvæmilegt“ að rætt verði um fyrirhugaða sölu ríkisins á TF-SIF, einu eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, á vettvangi ráðsins í næstu viku. Hún hyggst taka málið upp á næsta fundi ráðsins.

„Það þarf að fara yfir hlutverk sem þessari flugvél er ætlað að sinna í okkar samfélagi,“ segir Oddný. „Jarðvísindamenn hafa til dæmis varað við því að slæmt yrði að vera án flugvélarinnar ef það fer að gjósa. Víðir Reynisson svo hjá Almannavörnum að endurskoða verði allt saman í viðbragðsáætlunum þar sem gert er ráð fyrir þessari flugvél.“

Oddný segir að velta verði því upp hvort yfirhöfuð megi selja flugvélina út frá öryggissjónarmiðum. Hún telur að þetta hefði átt að gera áður en ákvörðun var tekin í málinu. „Ef maður horfir á ákvörðun ráðherra eina og sér þá er hún mjög gerræðisleg. Það var ekki talað um þetta í fjárlagagerðinni og ekki í fimm ára áætlun fyrir ráðuneyti. Það er eins og þessi áætlun hafi dottið af himnum ofan.“

„Þetta er eins og maður sé beðinn um að rétta fram alla fingurna og fá að velja einn sem maður vill halda á meðan hinir eru höggnir af.“

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, telur sölu flugvélarinnar afleitan möguleika. Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins um söluna stendur að ráðuneytið og LHG hafi komist saman að þeirri niðurstöðu að sala TF-SIF væri skásti kosturinn til að leysa úr fjárhagsvanda gæslunnar en Georg segist fremur líta á hann sem þann illskásta.

„Salan á flugvélinni er ómögulegur kostur en kannski samt sá illskásti,“ segir hann. „En engu að síður algjörlega ótækur. Þetta er eins og maður sé beðinn um að rétta fram alla fingurna og fá að velja einn sem maður vill halda á meðan hinir eru höggnir af.“

Georg segir að LHG muni færa rök fyrir flugvélinni sem nauðsynlegum þætti í almannavarnakeðjunni á fundi með fjárlaganefnd Alþingis á morgun. Hann telur rök dómsmálaráðherra um að flugvélin sé hvort eð er lítið notuð og sé oft utan landssteinanna ekki standast.

„Ástæða þess að hún hefur verið mikið í útlöndum er sú að ráðamenn hafa ekki vilja setja pening í hana til að hafa hana á Íslandi, sem við höfum alla tíð talað fyrir og hamrað á í þrettán ár. En við erum þó með hana í útlöndum, sem er betra en að hafa hana ekki, og það eru samningar þess efnis í gildi um að við getum tekið hana heim þegar á þarf að halda. Við höfum gert það, og það er einfaldlega ósatt sem ráðherra segir að það hafi ekki gerst.“