Michael Jón Clarke, tónlistarmaður á Akureyri, fer hörðum orðum um menningarhúsið Hof og líkir húsinu við skrímsli.

Þetta kemur fram í gagnrýni sem Michael ritar á staðarmiðilinn akureyri.net um Vínartónleika aðila í héraði ásamt Gissuri Páli Gissurarsyni tenóri.

Michael Jón skrifar að kostnaður við svona tónleika sé miklu meiri en svo að þeir geti skilað hagnaði. Um salinn þar sem tónleikarnir fóru fram í ársbyrjun segir hann:

„Hamrar er frábær tónleikasalur, eins og Hamraborg, en menningarhúsið er að verða líkara skrímsli sem étur börnin sín en miðstöð fyrir grasrótina til að vaxa og dafna eins og lagt var upp með á sínum tíma. Það er hverfandi að norðlenskir tónlistarmenn leggi út í svona fyrirtæki nema um kassaskemmtun sé að ræða.

„Nokkrar kampavínsflöskur voru sprengdar af kórfélögunum upp á sviði en ekkert var í boði fyrir áheyrendurna þar sem veitingahúsið var lokað og ljósin slökkt. Heyrst hefur að sá rekstur muni verða lokaður til framtíðar eins og margur annar sem hefur hlotið sömu örlög í húsinu," segir Michael Jón.

Tónlistarmaðurinn segir aðkallandi að rekstur menningarhúsa verði með þeim hætti að ala upp, næra og hlúa að börnum sínum, „ekki að éta og mergsjúga“, eins og hann orðar það.