Sigurður Odds­son, einn fremsti hönnuður Ís­lands, er mjög ó­sáttur við nýja hönnun Olís merkisins og segir að um „nánast glæp­sam­legt stór­slys í menningar­sögu Ís­lands“ sé að ræða.

Olís til­kynnti um breytingarnar á dögunum og sagði að mark­mið þeirra væri meðal annars að tengja út­lit vöru­merkja ÓB og Olís betur saman. Sitt sýnist þó hverjum og hafa miklar um­ræður skapast meðal grafískra hönnuða um um­breytinga­veg­ferð olíu­fé­lagsins.

„Mér finnst að nú þurfi að heyrast há­værar raddir úr faginu til að hrópa út þetta aug­ljósa virðingar­leysi, til­gangs­leysi, sölu­mennsku, egó og van­virðingu gagn­vart sögu­lega lang­lífri og tíma­lausri hönnun sem ná­kvæm­lega engin á­stæða var fyrir að breyta,“ segir Sigurður í færslu á Face­book.

Að sögn Sigurður er ný út­færsla Olís merkisins ekki góð og telur hann að út­lendingur hafi hannað merkið og yfir­sést ýmsar út­færslur á ís­lenskum ritunar­reglum. Hönnuður upp­runa­lega Olís merkisins er Þröstur Magnús­son, heiðurs­með­limur í Fé­lagi Ís­lenskra Teiknara, og efast Sigurður efast um að honum „þyki sér hafa verið sýnd mikil virðing með þessari breytingu“.

Mjög sjaldgæft í hönnunarheiminum

Sigurður segir það mjög ó­venju­legt að merki á borð við Olís-merkið lifi jafn lengi og raun ber vitni.

„Gamla merki Olís hefur staðið ó­breytt í hjart­nær fimm­tíu ár. Þetta er mjög sjald­gæft í heimi mörkunar, og þá sér­stak­lega á Ís­landi. Flest merki af þessum aldri úti í heimi og hér­lendis hafa farið í gegnum ferli smá­breytinga þar sem merkin hafa verið að­löguð að tíðar­anda og tísku hvers tíma­bils, gert þrí­vítt, settur glans­effekt, gerð af­mælis­út­gáfa sem endist lengur en var reiknað með og þar fram eftir götum,“ skrifar Sigurður.

Hann bætir því við að farið sé að bera á því er­lendis að vöru­merki leiti aftur til upp­runans.

„Trendið úti hefur þó verið að bakka al­ger­lega með þessar smá­breytingar, sækja í kjarnann, söguna og færa merkin aftur til uppprunans. Ný­leg vel­heppnuð dæmi um þetta eru ný­legar endur­markanir á ABC, Bur­ger King, Ree­bok og Dunkin Donuts svo eitt­hvað sé nefnt. Þetta hefur aldrei þurft að gera við merki Olís, vegna þess að merkið hefur þótt standa svo vel fyrir sínu, ó­breytt, að það hefur ekki þótt vera til­efni til þess. Þangað til núna,“ skrifar hann.

Ekki of seint að bakka

Frosti Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Olís sagði í til­kynningu að Olís hafi viljað „sýna sögunni virðingu en um leið nú­tíma­væða út­lit vöru­merkisins.“ Sigurður hvetur Frosta til að endur­hugsa breytingarnar og segir ekki of seint að snúa þeim við.

„Ég vil skora á hann og þá sem að þessu standa til að hlusta á al­menning, endur­hugsa for­sendurnar og staldra að­eins við. Það eru for­dæmi fyrir því að bakka með svona breytingar, og þó þær gætu verið kostnaðar­samar í dag þá væri það nánast glæp­sam­legt stór­slys í menningar­sögu Ís­lands að þessi endur­mörkun fái að ganga í gegn,“ skrifar Sigurður.