Líkið sem malasíska lögreglan fann í morgun er af hinni bresku Noru Quoirin. Nora, sem var fimmtán ára, hvarf af hótelherbergi fjölskyldu sinnar aðfaranótt sunnudagsins 4. ágúst. Ekki hefur verið upplýst um hvort andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Noru hefur verið leitað sleitulaust, nótt sem dag, í rúma viku – eða allt frá því að fjölskylda hennar vaknaði umræddan sunnudagsmorgun við opinn glugga á hótelherberginu. Lík hennar fannst svo í morgun við læk í skógi skammt frá hótelinu, allsnakið.
Foreldrar Noru hafa sagst sannfærðir um að dóttur þeirra hafi verið rænt og buðu meðal annars tíu þúsund pund, eða því sem nemur 1,5 milljónum íslenskra króna, í skiptum fyrir upplýsingar um hvarf dóttur sinnar.
Nora glímdi við sérþarfir, meðal annars skerta samskiptahæfni, en hún fæddist með sjaldgæft heilkenni sem kallast holoprosencephaly og hefur áhrif á þróun heilans.
Nora og fjölskylda hennar voru í fríi í Malasíu. Þau komu þangað 3. ágúst og ætluðu sér að dvelja í landinu í tvær vikur. Nora hvarf innan við sólarhring eftir komu þeirra til landsins.