Líkið sem malasíska lög­reglan fann í morgun er af hinni bresku Noru Qu­oirin. Nora, sem var fimm­tán ára, hvarf af hótel­her­bergi fjöl­skyldu sinnar að­fara­nótt sunnu­dagsins 4. ágúst. Ekki hefur verið upp­lýst um hvort and­látið hafi borið að með sak­næmum hætti.

Noru hefur verið leitað sleitu­laust, nótt sem dag, í rúma viku – eða allt frá því að fjöl­skylda hennar vaknaði um­ræddan sunnu­dags­morgun við opinn glugga á hótel­her­berginu. Lík hennar fannst svo í morgun við læk í skógi skammt frá hótelinu, alls­nakið.

For­eldrar Noru hafa sagst sann­færðir um að dóttur þeirra hafi verið rænt og buðu meðal annars tíu þúsund pund, eða því sem nemur 1,5 milljónum ís­lenskra króna, í skiptum fyrir upp­lýsingar um hvarf dóttur sinnar.

Nora glímdi við sér­þarfir, meðal annars skerta sam­skipta­hæfni, en hún fæddist með sjald­gæft heil­kenni sem kallast holoprosencephaly og hefur á­hrif á þróun heilans.

Nora og fjöl­skylda hennar voru í fríi í Malasíu. Þau komu þangað 3. ágúst og ætluðu sér að dvelja í landinu í tvær vikur. Nora hvarf innan við sólarhring eftir komu þeirra til landsins.