Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skimar nú grjótgarðinn við Eiðsgranda eftir líkfund.

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöð 1 og Margeir Sveinsson. yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, staðfesta þetta í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er líkfundur,“ segir Jóhann, aðspurður um aðgerðir lögreglu. Hann segist ekki geta svarað fyrir um hvort um sé að ræða konu eða karl eða á hvaða aldri einstaklingurinn sé.

Málið er nú til rannsóknar hjá Miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að sögn Jóhanns.

Líkbíll var á svæðinu um hálffjögur í dag og færði líkið af vettvangi en lögreglan er enn á Eiðsgranda við rannsóknir.

Lögreglan er á svæðinu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu um málið:

„Á öðrum tímanum eftir hádegi í dag barst tilkynning til lögreglu um líkfund í fjörunni norðan Eiðsgranda í Reykjavík. Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.“

Björgunarsveitin aðstoðar lögreglu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Björgunarsveitin var kölluð út til að aðstoða lögreglu eftir að tilkynnt var um líkfund klukkan tvö í dag. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitina oft aðstoða lögreglu í rannsóknum en vísaði til lögreglu varðandi upplýsingar um málið.

Líkið hefur verið fært af vettvangi en björgunarsveitarmenn eru enn að kempa fjöruna ásamt rannsóknarlögreglu. Verið er að nota dróna til að fá betri yfirsýn yfir svæðið og rétt eftir klukkan fjögur bættist í hóp leitarmanna.