Mead-vatn, uppistölulón búið til af Hoover-virkjun í Kol­or­adó-fljóti, er í dag að­eins fjórðungur af því sem það var áður. Þróunin sést vel á um­hverfinu þar sem upp­litað grjót allt að 55 metra yfir nú­verandi vatns­borði er til minningar um fyrri stærð vatnsins og kvik­syndi sprettur upp í bökkum sem eru ný­búnir að líta dagsins ljós.

Virkjunin sér um 350 þúsund heimilum fyrir raf­magni og um 25 milljónir ein­stak­linga í suð­vestur Banda­ríkjunum sækja drykkjar­vatn úr vatninu. Virkjunin var sett upp árið 1930 og þjóð­garðar á svæðinu hafa sett upp skilti víðs vegar til að sýna hve stórt vatnið var á mis­munandi tímum.

Sam­hliða því að vatnið þornar upp hafa alls konar munir birst gestum sem heim­sækja það. Meðal annars fundust tvö lík á innan við viku í byrjun maí á þessu ári.

Fjörtíu ára morðmál

Þann fyrsta maí fannst lík í tunnu sem var búin að tærast svo illa að gestir við vatnið gátu kíkt inn um hliðar þess. Talið er að fórnar­lambið hafi verið myrt á níunda ára­tugnum og kastað í vatnið, lík­lega úr báti.

Mæðgur heimsækja sokkið skip.
Fréttablaðið/Getty

Tunnan virðist ekkert hafa færst til í vatninu heldur kom hún í ljós út af lækkandi yfir­borðinu. Hún hefur lík­lega sest um þrjá­tíu metrum undir yfir­borðinu upp­runa­lega. Ekki er enn vitað hver fórnar­lambið er en lög­regla skoðar málið.

Viku síðar fundu tvær konur á róðra­bretti mann­skjálka grafinn í sandinum. Þar grófu þær einnig upp höfuð­kúpu og ljóst var að um líkams­leifar mann­eskju væri að ræða. Ekki er talið að and­látið hafi borið að með sak­næmum hætti heldur sé þetta mögu­lega eitt af mörgum dæmum um að fólk drukkni í vatninu.

Vatnið aldrei verið minna

Fyrir utan líkams­leifar hafa alls konar smá­munir og stærri munir fundist á nýju bökkunum. Byssur og sokknir bátar sem dæmi. Eitt­hvað af fólki hefur tekið upp á því að ferðast um vatnið í leit að fjár­sjóðum. Sögur spretta upp um mafíósa sem hafa falið tunnur fullar af stolnum verð­mætum ofan í ánni.

Fiskar sem verða eftir þegar vatnsborðið lækkar þorna upp og rotna í sólinni.
Fréttablaðið/EPA

Vatnið nær nú að­eins 28 prósent af rúm­taki og hefur aldrei verið minna. Það var eitt sinn vin­sæll ferða­manna­staður þar sem um 1200 bátar lögðu leið sína á degi hverjum. Nú fara um fimm­tíu til sex­tíu bátar á vatnið á dag.

Af­kasta­geta virkjunarinnar hefur einnig dregist saman um þrettán prósent vegna lækkandi vatns­borðsins, sem skilar sér í minni þrýstingi á túrbínurnar.