Orkustofnun afhjúpar í dag nýtt orkuskiptalíkan. Í líkaninu verður hægt að móta áætlanagerð, svo sem hvað varðar markmið í loftslagsmálum, út frá stillanlegum forsendum.

„Þetta er hugsað sem tól fyrir þá sem taka lykilákvarðanir. Hvort sem það er í atvinnulífinu eða hjá stjórnvöldum,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun. Líkanið verður hins vegar einnig opið almenningi og hægt verður að setja alls konar útreikning inn í það.

„Með þessu getum við séð hversu hratt hlutirnir þurfa að gerast til að árangur náist,“ segir Sigurður og bendir á að allar ákvarðanir þarf að taka tímanlega til þess að loftslagsmarkmið fyrir árin 2030 og 2040 náist. „Þú reddar ekki orkuskiptum korter í 2030,“ segir hann.

Líkanið er ný nálgun að gerð orkuspár en Orkustofnun hefur hingað til gert eldsneytisspár, raforkuspár og jarðvarmaspár. Nú er verið að taka þessa vinnu upp á næsta stig með gagnvirkri nálgun. Sigurður segir þetta mikilvægt í ljósi þess að orkugjöfum sé sífellt að fjölga.

Sigurður segir að það hafi aldrei verið eins flókið að gera spár og í dag. En að sama skapi hafa tækifærin til að hafa áhrif og stýra notkuninni aldrei verið meiri.

Mestar tækniframfarirnar og hagkvæmnin birtist í samgönguhlutanum. Inni í líkaninu eru vegasamgöngur og skipaflotinn. En í aðgerðaáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir 21 prósents samdrætti losunar í vegasamgöngum og 42 prósentum frá skipum árið 2030. Líkanið sýnir hins vegar að við eigum nokkuð í land með þetta.

„Orkuskiptin ganga vel en þau ganga ekki nógu hratt miðað við skuldbindingar okkar,“ segir Sigurður en vill alls ekki útiloka að þetta náist, að minnsta kosti að stærstum hluta. Efast hann um að 100 prósent orkuskipti geti nokkurn tímann náðst því alltaf verði einhverjar leifar. Markmiðið er hins vegar að landið verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 og að innlend orka verði allsráðandi í innanlandsnotkun.

„Við erum byrjuð og það er alltaf erfiðast að byrja,“ segir hann og býst við að fram að árinu 2030 verði orkuskiptin keyrð áfram af enn meiri krafti og innviðir fyrir þau byggðir upp. Ef það tekst ætti tímabilið eftir það, frá 2030 til 2040, að vera útfösunartímabil á markaðslegum forsendum. „Það ætti að gerast býsna hratt og auðveldlega,“ segir hann.

Sigurður Ingi Friðleifsson sviðsstjóri hjá Orkustofnun

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í lok október eru smábátasjómenn ekki vongóðir um orkuskipti í strandveiðum í bráð, þrátt fyrir ívilnanir stjórnvalda. Kostnaðurinn er allt of hár.

Sigurður segir tæknilega óvissu meiri í orkuskiptum skipa en bíla. „Skipin eru kannski áratug á eftir vegasamgöngum. En það er margt sem bendir til þess að þau renni inn í svipað mót þegar líður fram,“ segir hann.

Flugið sé hins vegar flóknara mál. Alþjóðasamningar séu í gildi sem flugfélögin eru bundin af. Þegar kemur að flugi séu stjórnvöld hér ekki 100 prósent við stjórnvölinn eins og til dæmis í vegasamgöngunum.