Lögreglan í Kaliforníuháskóla, UC Berkeley, rannsakar nú hvernig andlát einstaklings, sem fannst í gamalli heimavistarbyggingu skólans, bar að.
Líkamsleifarnar, lítið meira en beinagrind, fundust á dögunum en ljóst þykir að mörg ár eru síðan manneskjan lést. Um er að ræða gamla heimavistarbyggingu sem ekki hefur verið í notkun árum saman.
Í frétt CNN er haft eftir lögreglu að ekki sé talið að viðkomandi hafi verið nemandi við skólann, engra nemenda sé að minnsta kosti saknað samkvæmt upplýsingum lögreglu.
Réttarlæknir mun nú reyna að skera úr um dánarorsök og þá verður þess freistað að bera kennsl á líkið.
Nemendur við skólann, sem eru alls 45 þúsund, urðu varir við mikinn viðbúnað lögreglu í síðustu viku þegar líkamsleifarnar fundust.