Leitin að Birnu Brjánsdóttur, fjölgun umferðarlagabrota, Metoo-byltingin og fleiri málefni eru meðal þess sem fjallað er um í ársskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2017 sem birt var í dag. 

Verkefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um ríflega 13 prósent á milli áranna 2016 til 2017. Þá færðist skipulögð brotastarfsemi í aukanna og fíkniefnamálum fjölgaði verulega í umdæminu. 

Óvenju margar líkamsárásir í desember 

Tilkynningum um líkamsárásir fjölgaði lítillega á milli áranna 2016 og 2017. Skráð ofbeldisbrot voru tæplega 1300, en flest töldust minniháttar. Ofbeldisbrotin dreifðust nokkuð jafnt yfir árið, en voru þó ívið fleiri síðustu mánuði ársins. „Þar af voru meiri háttar líkamsárásir óvenju margar í desember, en þá komu alvarlegar líkamsárásir næstum daglega til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslunni. 

Skipulögð brotastarfsemi færist í aukanna 

Innbrot og þjófnaður á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði milli ára, en tekið er þó fram í skýrslunni að slíkar tölur sveiflist gjarnan. Þá færðist skipulögð brotastarfsemi í aukanna, en lögreglu var tilkynnt um hátt í 900 innbrot í umdæminu og ekki hefur tekist að upplýsa þau öll. Að meðaltali var lögreglu tilkynnt um 75 innbrot á mánuði, eða tvö á dag og rúmlega það. 

Umfangsmikið fjársvika- og fjárdráttarmál var til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á fyrri hluta ársins 2017, en sakborningur var karlmaður á fimmtugsaldri. Maðurinn hafði einbýlishús til umráða og leigði það samtímis nokkrum öðrum án þess að hafa heimild frá eiganda. 

Farið er yfir fleiri brot mannsins í skýrslunni, en var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brotin. Vingjarnlegir, erlendir sölumenn voru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu yfir sumarmánuðina og fóru víða um. 

Þar seldu þeir fólki fatnað á ólíklegustu stöðum og spöruðu ekki „stóru orðin“ um varninginn. Lögreglu bárust fjölda kvartana um málið og voru mennirnir handteknir. 

Fjögur banaslys árið 2017 

Skráð umferðarlagabrot voru um 40.000 og fjölgaði mikið á milli ára, en í skýrslu lögreglustjóra kemur fram að árið hafi ekki verið gott þegar kom að umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Tólf létust í umferðarslysunum á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2015 til ársins 2017, en eru það helmingi fleiri en á árunum 2011 – 2013. 

Þúsund voru teknir fyrir ölvunarakstur og enn fleiri fyrir fíkniefnaakstur, eða um 1500. „Áður fyrr voru fleiri teknir fyrir ölvunarakstur heldur en fíkniefnaakstur, en undanfarin fjögur ár hefur þessu verið öfugt farið,“ segir í skýrslunni. 

Hótaði konu með nektarmyndum

Síðustu árin hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði borist á þriðja hundrað tilkynninga um kynferðisbrot. Á síðasta ári bárust embættinu tilkynningar um 300 kynferðisbrot og var nær helmingur þeirra um nauðganir. „Í þeim sporum var kona sem hafði kynnst manni í gegnum samskiptaforrit. Sá villti á sér heimildir og sagðist vera annar en hann var. Maðurinn vann sér inn trúnað konunnar og sendi hún honum nektarmyndir af sér. Með þær undir höndum fór maðurinn að hóta konunni og krefja hana um allskyns kynferðislega athafnir,“ segir í skýrslunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.