Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni í máli er varðaði líkamsárás. Maðurinn hafði hlotið þrjátíu daga dóm, en fullnustu hans var frestað myndi maðurinn halda almennt skilorð, og þá var hann jafnframt dæmdur til að greiða 200.000 til brotaþola og tæpar 600.000 krónur í lögmanns og sakarkostnað.

Ákæruvaldið krafðist þess að dómurinn yrði þyngdur, en ákærði krafðist sýknu, en til vara að refsing hans yrði milduð. Líkt og áður segir var ákvörðun Landsréttar sú að staðfesta dóm Héraðsdóms.

„Heldurðu að ég geti ekki drepið þig, ég get alveg drepið þig“

Málið varðaði atvik sem virðist hafa átt sér stað í einhverskonar teiti. Brotaþoli lýsti atvikinu þannig að hann og ákærði, sem virðist hafa verið talsvert eldri, hefðu verið úti að reykja saman. Þá hafi þeir byrjað að ræða gamalt rifrildi sem hafi orðið til þess að sá ákærði hafi reiðst og sagt: „Hvað þykist þú vera? Heldurðu að þú sért yfir alla hafinn? Heldurðu að ég geti ekki drepið þig, ég get alveg drepið þig.“ og síðan bætt við að hann ætlaði að drepa hann.

Brotaþoli sagðist ekki hafa trúað því að maðurinn ætlaði að drepa hann og farið frá honum. Þá hafi maðurinn komið aftan að honum og tekið hann hálstaki sem hann hefði haldið í eina mínútu. Hann segist ekki hafa streist á móti þar sem hann „bæri virðingu fyrir eldra fólki“. Það hafi síðan verið einstaklingur tengdur manninum sem stöðvaði árásina, og haldið að ef hann myndi ekki gera það hefði maðurinn drepið brotaþolann. Í kjölfarið hafi maðurinn haldið áfram að hóta honum lífláti.

Brotaþoli kvaðst hafa fundið til í barkakýlinu og fengið blóðsprungin augu. Samkvæmt læknisvottorði var hann meðal annars með blæðingu í báðum augum. Um var að ræða blæðingar sem ekki þurfti að aðhafast neitt við, en þær hverfa almennt á sjö til tíu dögum.

Mundi ekki hvað gerðist vegna ölvunar

Ákærði sagði einnig sína upplifun af atvikinu en kvaðst ekki muna hvað hefði gerst vegna ölvunar og enginn vitni verið viðstödd. Hann kannaðist þó eftir að hafa verið í heimsókn á staðnum þar sem atvikið átti sér stað og verið að drekka áfengi þar.

Hann og brotaþoli hefðu síðan farið út að reykja og brotaþolinn viljað ræða gamalt mál sem hefði komið upp í helgarútilegu, en sjálfum hafi honum fundist það löngu afgreitt mál og sér óviðkomandi. Hann hafi því beðið brotaþola um að hætta að tala um það. Stuttu síðar hafi brotaþoli sagt eitthvað sem reitti hann til reiði, en hann segir brotaþolann hafa „ráðist á sig með ónotum og skömmum“ þrátt fyrir að hann myndi ekki hvað það var sem var sagt.

Hann sagðist hafa reiðst mjög og viðurkenndi að hann gæti hafa ýtt við brotaþola en muni þó ekki nákvæmlega hvað gerðist. Fram kemur að þegar hann var spurður um játningu sína af lögreglu kvaðst hann telja líklegt að árásin hefði átt sér stað, en virðist hafa dregið það í land.

Vitnisburður brotaþola þótti trúverðugur. Tvö vitni komu að áflogunum og þóttu lýsingar þeirra í samræmi við það sem brotaþoli sagði, sem og læknisvottorðið. Þar af leiðandi þótti framburður hans sannaður, bæði af hálfu Héraðsdóms og Landsréttar.