Lögreglunni á Suðurlandi hefur borist kæra vegna líkamsárásar sem sögð er hafa átt sér stað fyrir utan Hvítahúsið á Selfossi um helgina þar sem fram fór tónlistarhátíðin Kótelettan.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að atvikið muni hafa átt sér stað sunnan við tónleikasvæðið, gegnt Bílanausti, um klukkan fjögur aðfaranótt sunnudagsins. Árásin hafi átt sér stað í kjölfar þess að þolandi árásarinnar hafði rætt við ökumann leigubifreiðar.

Óskar lögregla eftir því að þeir sem veitt geti upplýsingar um atvikið hafi samband við lögreglu í póstfangið [email protected]