Einn var fluttur á bráðadeild Landspítalans með áverka á höfði eftir líkamsárás í skemmtun sem skipulögð var af starfsmannafélagi WOW Air og haldin var á Hard Rock Café við Lækjargötu á föstudagskvöld. Maðurinn er á batavegi samkvæmt upplýsingafulltrúa fyrirtækisins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er árásarmaðurinn flugþjónn hjá WOW Air sem nú hefur látið af störfum, og maðurinn sem ráðist var á flugmaður hjá flugfélaginu. Enn herma heimildir Fréttablaðsins að árásarmaðurinn hafi kastað í manninn matardisk og svo látið spörkin dynja þegar hann lá í jörðinni. Mikið blóð ku hafa verið á vettvangi. 

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, var ekki til taks til að svara spurningum Fréttablaðsins en sendi skriflegt svar: „Ég get staðfest að starfsmaður okkar lenti í tilefnislausri árás síðastliðið föstudagskvöld. Hann hefur fengið viðeigandi aðstoð og er á batavegi.“ 

Sjónarvottar segja að starfsmenn sem voru á staðnum hafi verið mjög brugðið. Tilkynning þess efnis að í lagi sé með starfsmanninn sem varð fyrir árásinni var send á alla starfsmenn WOW Air.