Líkami Guðmundar Felix Grétarssonar er farinn að hafna nýju handleggjunum sem á hann voru græddir. Hann segir höfnun mannslíkamans á nýjum líkamsparti eftir ígræðslu algenga og hann sé nú kominn í lyfjameðferð vegna hennar.
Guðmundur Felix birti í dag nýja færslu á Facebook þar sem hann fer yfir nýjustu fréttir af bataferli sínu. Þar greinir hann frá því að fyrir tveimur dögum hafi læknar á spítalanum tekið eftir því að líkami hans væri farinn að sýna merki höfnunar við handleggjunum.
„En það var vitað að þetta myndi gerast. Það eru einhverjir rauðir blettir sem fóru að birtast en í öllum handaígræðslum, sem hafa verið gerðar hingað til, er þetta eitthvað sem hefur alltaf gerst á fyrstu níutíu dögunum.“
Vonandi allt komið í lag eftir nokkra daga
„Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir bjuggust við þessu og vita hvað á að gera,“ segir hann. Hann sé nú á háum skammti af lyfjum við þessu. „Vonandi verður allt orðið í lagi aftur á innan við nokkrum dögum.“
Guðmundur segir gott að líkaminn hafi hafnað handleggjunum nú strax á meðan hann er enn á spítalanum, því læknarnir þar kunni best að taka á vandanum. Samkvæmt áætlun á hann að færa sig yfir á endurhæfingarspítala 22. febrúar og vera þar inniliggjandi í að minnsta kosti þrjá mánuði. Því er jákvætt að líkaminn hafi ekki farið að hafna handleggjunum þar.
Guðmundur segir annars að sér líði vel; hann er orðinn orkumeiri og segist nú geta eytt meiri tíma sitjandi og standandi.
Latest updates
Posted by Felix Gretarsson - Coaching on Sunday, 7 February 2021