David og Louise Turpin, frá Kaliforníu í Bandaríkjunum, hafa verið dæmt í lífstíðarfangelsi fyrir áralangar misþyrmingar gegn börnunum sínum þrettán. Börnin bera fyrir rétti að þau hafi fyrirgefið foreldrum sínum misnotkunina.

BBC greinir frá þessu. Foreldrarnir voru handteknir í janúar í fyrra þegar 17 ára dóttir þeirra flúði heimilið, sem er í Perris í Kaliforníu. Fyrir dómi viðurkenndu foreldrarnir misþyrmingarnar yfir 12 af 13 börnum sínum. Þær hafi staðið yfir í níu ár.

Búist er við því að fólkið verði á bak við lás og slá það sem þau eiga eftir ólifað. Þau eiga þó kost á reynslulausn eftir aldarfjórðung, komi til þess.

„Ég elska foreldra mína mjög mikið,“ sagði Jessica, ein dóttirin, í yfirlýsingu sem lesin var upp þegar dómur féll yfir fólkinu. „Jafnvel þó þetta hafi ekki verið besta uppeldið er ég ánægð með það. Þetta gerði mig að þeirri sem ég er í dag,“ sagði hún. Önnur stúlka lýsti upplifuninni sem hryllingi. „Ég get ekki fært í orð hvað við þurftum að ganga í gegn um. Ég fæ enn martraðir og dreymir að systkini mín séu bundin föst og barin.“ Hún sagði hins vegar að barsmíðarnar tilheyrðu fortíðinni. „Ég elska foreldra mína og hef fyrirgefið þeim ýmislegt sem þau gerðu okkur.“

Foreldrarnir grétu þegar bréfin voru lesin upp. Þau grétu líka þegar þau báðust afsökunar á misþyrmingunum en börnin voru stundum hlekkjuð við rúmin sín vikum saman. Þau fengu aðeins að baða sig einu sinni á ári.

Sú sem strauk hafði undirbúið flóttann í um tvö ár. Símtal hennar til neyðarlínunnar varpar ljósi á það sem börnin gengu í gegn um. „Tvær systur mínar og bróðir minn eru hlekkjuð við rúmið,“ sagði hún meðal annars í símtalinu. „Stundum vakna ég upp og get ekki andað vegna þess hversu skítugt húsið er,“ sagði hún líka.

Börnin heita öll nöfnum sem byrja á stafnum J. Þeim var haldið inni árið um kring en fengu þó að fara á hrekkjavöku og í fjölskylduferðir í Disneyland og til Las Vegas.

Tuttugu manns, víðs vegar um landið, hafa lýst yfir vilja til að taka að sér börnin. Þeirra á meðal eru hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar. Sjö barnanna hafa í dag náð 18 ára aldri en sex eru enn börn að lögum.