Meðalævilengd karla á Íslandi var 81 ár árið 2019 og meðalævilengd kvenna 84,2 ár.

Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd. Frá þessu er greint á vef Hag­stof­unn­ar.

Meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans.

Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Svissneskir karlar og spænskar konur lifa lengst

Á tíu ára tímabili, frá 2009 til 2018 var meðalævi karla lengst í Sviss, 80,9 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið í Evrópu.

Fast á hæla þeirra komu karlar á Íslandi með 80,8 ár og Liechtenstein með 80,4 ár. Sænskir og Ítalskir karlar urðu að meðaltali 80,2 ára og Norðmenn 79,9 ára.

Styst var meðalævilengd karla í Úkraínu 67 ár, Hvíta-Rússlandi 67,8 ár og Litháen 68,9 ár.

Á sama tíma var meðalævi kvenna á Spáni, 85,8 ár og í Frakklandi 85,6 ár og skipuðu þær fyrsta og annað sæti í Evrópu.

Næst á eftir komu konur í Sviss með 85,2 ár, Ítalíu með 85,1 ár, Liechtenstein með 84,4 ár og Luxemborg með 84,2 ár. Íslenskar konur skipuði sjöunda sæti og urðu þá að meðaltali 84,1 árs.

Meðalævilengd kvenna var styst í Úkraínu, 76,9 ár, Azerbaijan 77,2 ár og Norður-Makedóníu 77,5 ár.

Ungbarnadauði minnstur á Íslandi


Árið 2019 létust 2.275 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.157 karlar og 1.118 konur.

Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði 1,1 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2019.

Á árunum 2009 til 2018 var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér.

Ungbarnadauði var að meðaltali 2,1 í Finnlandi, 2,2 í Slóveníu, 2,4 í Svíþjóð og 2,5 í Noregi.

Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 11,0 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.