Fram­kvæmda­stjórn SA hefur hefur tekið sam­hljóma á­kvörðun um að Lífs­kjara­samningurinn gildi á­fram. At­kvæða­greiðsla meðal fé­lags­manna SA um upp­sögn samninganna mun því ekki fara fram. Þetta kemur fram í til­kynningu.

Er til­efnið til­lögur stjórn­valda að að­gerðum í átta liðum sem Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra kynnti fyrr í dag. Um­fang þeirra nemur um 25 milljarða króna og sagðist Katrín í sam­tali við Frétta­blaðið bjart­sýn á að þær yrðu til þess að friða SA.

Í til­kynningunni frá SA segir að fram­kvæmda­stjórnin hafi tekið af­stöðu til tveggja kosta. At­kvæða­greiðslu fé­lags­manna um fram­hald eða upp­sögn Lífs­kjara­samningsins og á­fram­hald samningsins að teknu til­liti til að­gerða stjórn­valda.

Segja sam­tökin að heildar­kostnaður fyrir­tækja á al­mennum vinnu­markaði vegna launa­hækkunar 1. janúar næst­komandi nemi 40-45 milljörðum króna á árs­grund­velli og að­gerðir stjórn­valda muni koma til með að milda þau á­hrif.Sam­tökin segja að eftir sem áður munu launa­hækkanirnar veikja stöðu at­vinnu­lífsins og mörg fyrir­tæki þurfa að bregðast við þeim kostnaði.

„Fram­kvæmda­stjórn SA telur sættir á vinnu­markaði mikil­vægar og vill stuðla að þeim. Þær verða þó ekki keyptar á hvaða verði sem er. Verka­lýðs­for­ystan hefur því miður ekki verið til­búin til við­ræðna um að­gerðir til að bregðast við for­sendu­bresti í at­vinnu­lífinu,“ segir í til­kynningunni.

Hug­myndum SA um frestun launa­hækkana og lengingu kjara­samnings sem henni nemur, tíma­bundna lækkun á fram­lagi at­vinnu­rek­enda í líf­eyris­sjóði og tíma­bundna frestun á endur­skoðun kjara­samningsins hafi öllum verið hafnað um­ræðu­laust.

„Sú staða þvingaði Sam­tök at­vinnu­lífsins til að leita sam­starfs við stjórn­völd um mótun sam­eigin­legra við­bragða við ger­breyttri stöðu at­vinnu­lífsins frá því þegar Lífs­kjara­samningurinn var undir­ritaður fyrir rúmu ári síðan. Yfir­lýsingin ber vitni um sam­eigin­lega á­byrgð SA og stjórn­valda og vilja til þess að leiða sam­fé­lagið í gegnum kreppuna.“