Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), kallar eftir sveigjanleika af hálfu verkalýðshreyfingarinnar vegna þeirrar gjörbreyttu myndar sem blasir við íslensku samfélagi vegna kórónakreppunnar.

Í yfirlýsingu sem SA sendu frá sér í gær kemur fram að samtökin telji forsendur Lífskjarasamningsins brostnar. Heimild sé til að segja upp kjarasamningum á almennum vinnumarkaði um mánaðamót komi verkalýðshreyfingin ekki til móts við atvinnulífið.

Halldór segir mikinn samningsvilja hafa einkennt viðræður um Lífskjarasamninginn hingað til af hálfu SA. „Upplegg SA er einfaldlega að semja um sameiginlegt viðbragð við þeirri efnahagsstöðu sem upp er komin, við viljum efna kjarasamninginn að fullu og við viljum ekki hafa neitt af fólki. Eina sem við biðjum um er sveigjanleiki á meðan við komum okkur upp úr þessum skafli sem öll þjóðin er föst í,“ segir Halldór. Hann segir verkalýðshreyfinguna hafa hafnað öllum sáttaumleitunum SA.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, er á öðru máli. ASÍ telji ekki að forsendur samningsins séu brostnar. Mikilvægt sé að friður haldist á vinnumarkaði. Forsendurnar sem um ræðir snúa að auknum kaupmætti, lægri vöxtum og afnámi verðtryggingar, sem kveðið var á um í Lífskjarasamningnum.

Drífa segir ASÍ ekki tilbúið til að gangast við þeim tillögum sem SA hefur lagt til. „Við höfum lagt heildstætt mat á það að þeim árangri sem stefnt var að hafi verið náð, kjaratölfræðinefnd staðfesti það í síðustu viku,“ segir Drífa. ,,Það er náttúrulega alveg ljóst að það er skynsamlegt að halda frið og fyrirsjáanleika á vinnumarkaði,“ bætir hún við.

SA hefur boðað til atkvæðagreiðslu meðal sinna félagsmanna á allra næstu dögum þar sem dreginn verður fram vilji fjölda fyrirtækja innan vébanda þeirra um hvort eigi að rifta kjarasamningum. Ljóst er að SA þurfa að hafa hraðar hendur en niðurstaða þarf að liggja fyrir í allra síðasta lagi á miðvikudag í næstu viku.