Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fór um víðan völl í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hún hóf ræðuna á því að minnast á þann frið sem hún upplifði þegar hún, ásamt umhverfisráðherra, undirritaði verndaráætlun fyrir Geysissvæðið fyrr í vikunni en minnti á að það megi ekki á sama tíma gleyma vandamálum annarra.

„Á slíkri stundu getur verið erfitt að hugsa um hamfaraflóð í Pakistan, stríð í Úkraínu, orkukreppu í Evrópu og fjölmargt fleira sem ógnar meðbræðrum okkar og systrum um allan heim. En þótt lönd og höf skilji að, þá eru vandamál þeirra líka okkar vandamál,“ sagði Katrín.

Hún fjallaði einnig um loftslagsvánna og þau skref sem ríkisstjórn hennar ætlar að taka á komandi þingvetri til að bregðast við henni og nefndi sem dæmi frumvarp um bann við olíuleit í efnahagslögsögunni og að það væri mikilvægt að það yrði afgreitt.

Ef yrði af því sagði Katrín það vera „skýr skilaboð til umheimsins að Ísland ætlar að leggja sitt af mörkum til að takast á við þessa stærstu vá samtímans.“

Íslendingar í öfundsverðri stöðu

Katrín nefndi einnig mikilvægi orkuskipta, græna orkugjafa og mikilvægi þess að orkukerfið á Íslandi sé sjálfstætt og undir innlendri stjórn.

„Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt – þegar almenningur í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur – er augljóst að við erum í öfundsverðri stöðu. Þetta er meðal annars vegna þess að góðar og framsýnar ákvarðanir hafa verið teknar hingað til. Og miklu skiptir hvernig verður fram haldið,“ sagði Katrín og nefndi í kjölfarið stríðið í Úkraínu en hækkandi orkuverð er ein afleiðing þess.

„Þó að við Íslendingar séum enn fjarri heimsins vígaslóð þá lætur stríðið engan ósnortinn og enn og aftur hefur fjöldi fólks verið sviptur framtíð sinni, draumum og þrám. Ísland hefur tekið á móti um 1600 Úkraínumönnum á flótta og við munum gera okkar besta til að styðja við þau eftir fremsta megni. Ísland hefur veitt úkraínsku þjóðinni pólitískan stuðning á alþjóðavettvangi og lagt fram fjármuni meðal annars í mannúðaraðstoð og efnahagslegan stuðning. Þegar Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu á haustmánuðum munu málefni Úkraínu koma til okkar kasta og þar munum við tala skýrt,“ sagði Katrín.

Þó að við Íslendingar séum enn fjarri heimsins vígaslóð þá lætur stríðið engan ósnortinn

Hún sagði að þrátt fyrir erfitt ástand í kjölfar bæði heimsfaraldurs og innrásarinnar þá væri atvinnuástandið gott á landinu og hagvaxtarhorfur góðar. Hún sagði mikilvægt að halda áfram að styðja vel við þau sem eiga erfitt með að mæta þessari stöðu og nefndi almannatryggingakerfið, aukinn húsnæðisstuðning og barnabætur og að þetta séu öll mál sem skipti máli fyrir komandi kjarasamninga í vetur.

Fréttablaðið/Valli

Katrín fjallaði einnig um mikilvægi mannréttinda ýmissa hópa og hvernig ríkisstjórnin hefur og mun standa vörð um þau. Hún nefndi sérstaklega réttindi hinsegin fólks, lögfestingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og réttindi innflytjenda.

„Samfélagsleg þátttaka fólks sem hingað flytur til að sinna ýmsum störfum skiptir okkur öll máli. Lífið er nefnilega ekki bara vinna heldur svo margt annað og við eigum að bjóða þeim sem hingað koma tækifæri til að taka þátt í lífinu á Íslandi – syngja í kór, stunda íþróttir og útivist, taka þátt í stjórnmálum og félagsstarfi, fara í leikhús eða hvað það er sem mann langar að gera. Íslenskukunnátta er mikilvægur lykill að því lífi – fyrir þau sem hingað koma en ekki síður fyrir okkur sem berum ábyrgð á að verja tungumálið og tryggja að það geti haldið áfram að vaxa og dafna,“ sagði Katrín í ræðu sinni sem hún lauk svo á hvatningarorðum til þingmanna.

„Þó að stjórn og stjórnarandstaða eigi eðli máls samkvæmt að takast á og leiða fram rök og gagnrök þá vona ég að þingmenn allir, óháð flokkum og ólíkum lífsskoðunum beri gæfa til að vinna á slíkum grundvelli þjóðinni allri til heilla á þeim þingvetri sem nú er að hefjast.“