„Síðan ég greindist með CO­VID-19 hef ég ekki upp­lifað einn dag þar sem mér líður eðli­lega,“ segir Amy Mc­Kenzieis, þrí­tug þriggja barna móðir, í sam­tali við frétta­skýringa­þáttinn A Cur­rent Af­fairs í Ástralíu.

Í þættinum var rætt við nokkra ein­stak­linga sem eiga það sam­eigin­legt að hafa veikst af CO­VID-19 í byrjun far­aldursins fyrr á þessu ári. Þó að nokkrir mánuðir séu liðnir frá veikindunum glíma þessir ein­staklingar enn við eftir­köstin. Hér á landi hafa þó nokkrir stigið fram og lýst sam­bæri­legri reynslu sinni eins og má sjá í fréttinni hér að neðan.

Amy segir í þættinum að þá daga sem henni líður verst eigi hún mjög erfitt með að anda. Þau ein­kenni hafa sem betur fer gengið til baka. „Nú er þetta önnur bar­átta. Ég er með dofa og stingi í höndum og fótum. Ég er þrek­laus og miklu oftar með höfuð­verk en áður.“

Anna Lip­tak, einka­þjálfari og tveggja barna móðir, er enn á bata­vegi fimm mánuðum eftir að hafa smitast af veirunni í Mel­bour­ne. Síðan þá hefur hún að mestu legið í rúminu vegna gríðar­legrar þreytu sem hún upp­lifir.

„Það veit enginn hvað er að. Það er það sem er ó­hugnan­legt. Ég veit ekki hvað þetta mun vara lengi,“ segir hún. Þá segist hún vera með verki í eyrunum og stöðugt suð. Hún segir að þó veiran sé hættu­legust fyrir eldra fólk geti hún haft mikil á­hrif á unga sem aldna og virðist þá litlu skipta hvort við­komandi er í góðu líkam­legu formi.

Mukesh Hai­kerwal, læknir í Mel­bour­ne, segir í frétta­skýringa­þættinum að ungt fólk, þá sér­stak­lega í aldurs­hópnum 18 til 29 ára, sé alveg jafn mót­tæki­legt fyrir veirunni og eldra fólk. Fá­títt sé að þeir sem smitast fái lítil eða engin ein­kenni. Þess vegna þurfi fólk í öllum aldurs­hópum að gæta að sér.