Sonja Rut Rögnvaldsdóttir, forsvarsmaður Villikatta á Austurlandi, segir allt í hers höndum í Fljótsdalshéraði, þrátt fyrir sáttattón í bæjaryfirvöldum í upphafi átaks til þess að stemma stigu við lausagöngu villikatta fyrir hálfum mánuði.

„Frá því aðgerðirnar hófust þann 18. febrúar hafa þeir ekki náð einum einasta ómerkta ketti, einungis 3 örmerktum köttum sem komið var til eigenda sinna,“ segir Sonja Rut í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Reiðin kraumar vegna boðaðrar útrýmingar villikatta í Héraði

„Stórar yfirlýsingar um hinn mikla villikattavanda í Héraði virðast því ekki á rökum reistar, sem við vissum svosem, enda búin að taka tæplega 60 ómerkta ketti inn af götum sveitarfélagsins á síðasta ári. Þannig að það má spyrja hvar þeir eru allir þessir ómerktu kettir sem herja á íbúa og nauðsynlegt var að fara í rándýra herferð gegn?“

Keyptu Kisu lausa

Læðan Kisa er ein þessara katta en hún var klófest nýlega og Sonja Rut segir þau hjá Villiköttum ekki hafa þorað öðru en að kaupa hana lausa á föstudaginn. „Við þurftum við að punga út 21.300 krónum til að fá Kisu, sem er á okkar vegum, lausa. Annars hefði hún verið aflífuð.“

Sjá einnig: Villikettir á Austurlandi fá gálgafrest

Kisa var kettlingafull þegar hún kom til Villikatta á Austurlandi í mars í fyrra. Skömmu síðar gaut hún þremur kettlingum, tveimur læðum og einu fressi. Hún var síðan gerð ófrjó, ormahreinsuð, bólusett og örmerkt og síðan sleppt á heimaslóðirnar á iðnaðarsvæðinu á Egilsstöðum.

Sonja Rut segir Kisu hafa verið of villta til þess að geta aðlagast heimilislífi en hún sé vel liðin á iðnaðarsvæðinu þar sem hún gengur vasklega fram í músaveiðum, eigendum fyrirtækja á svæðinu til mikillar ánægju.

Eltingarleikur við ímyndaða villiketti

Sonja Rut segir Kisu vera eina af sex köttum sem Villikettir á Austurlandi slepptu lausum á ný að lokinni ófrjósemisaðgerð en kettlingunum hennar hafi verið fundin framtíðarheimili.

Sonja Rut segir reynslu síðustu tveggja vikna benda til þess að lítið virðist hafa verið að marka yfirlýsingu Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, í bréfi dagsettu 18. febrúar um að vilji væri af hálfu sveitarfélagsins að komast að farsælli niðurstöðu.

Sjá einnig: Slá skjaldborg um villta ketti og safna undirskriftum

„Sveitarfélagið hefur haldið sínu striki án þess að gefa nokkuð eftir og heldur dýraeftirlitsmaður þess áfram að eltast við ímyndaða villiketti, nótt eftir nótt,“ segir Sonja Rut.

Fátt er þó svo með öllu illt og Sonja Rut segir að góðu fréttirnar að austan séu að nýlega hafi verið skrifað undir samstarfssamning við Fjarðabyggð um að Villikettir á Austurlandi muni sjá um að fanga og annast alla ómerktra ketti á svæðinu með fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélaginu.

Höfuðlausn læðunnar Kisu

Sonja Rut sendi í nafni Villikatta á Austurlandi eftirfarandi bréf vegna Kisu á bæjarskrifstofuna, alla bæjarfulltrúa og bæjarstjóra síðastliðinn fimmtudag. Hún segir ekkert svar hafa borist og því hafi Villikettir ekki þorað öðru en að leysa Kisu út á föstudaginn:

Egilsstöðum, 28. febrúar 2019

Komið þið sæl,

Læðan ,,Kisa” (ÖM. 352206000125851) er nú í haldi dýraeftirlitsmanns Fljótsdalshéraðs. Kisa kom til Villikatta á Austurlandi í mars 2018, þá kettlingafull, og gaut skömmu síðar þremur kettlingum, tveimur læðum og einu fressi. Kisa gekkst undir ófrjósemisaðgerð í maí 2018 og var þá einnig ormahreinsuð, bólusett og örmerkt. Hún er fædd á iðnaðarsvæðinu á Egilsstöðum og var sleppt aftur þangað í júní 2018 eftir að hafa jafnað sig eftir ófrjósemisaðgerðina. Hún er vel liðin af fyrirtækjaeigendum á því svæði sem hún heldur til, enda er hún iðin við að veiða mýs. Kisa var of villt til að aðlagast manninum og er hún ein af sex köttum sem Villikettir á Austurlandi hafa sleppt út á Fljótsdalshéraði, allir að sjálfsögðu ófrjóir, bólusettir, ormahreinsaðir og örmerktir.

Af kettlingum Kisu fóru tveir á heimili í dreifbýli en sá þriðji fékk heimili á Egilsstöðum þar sem hann er skráður og greidd af honum árleg gjöld til sveitarfélagsins. Hefðu Villikettir á Austurlandi ekki tekið Kisu inn á sínum tíma væri hún búin að eiga 1-2 got til viðbótar, læðukettlingarnir tveir sem komið var á heimili væru orðnar kynþroska og búnar að fjölga sér, og fresskettlingurinn líka búinn að leggja sitt af mörkum við að viðhalda villikattastofninum. Kettlingar Kisu úr seinni gotum væru að öllum líkindum einnig orðnir kynþroska. Kostnaður Fljótsdalshéraðs við föngun og aflífun þessara katta í aðgerðum þeim er standa yfir núna hefði því verið umtalsverður, en þann kostnað hafa Villikettir á Austurlandi sparað sveitarfélaginu. Samt sem áður hefur sú krafa verið sett fram að Villikettir á Austurlandi greiði lausnar-og vistunargjald fyrir Kisu, að öðrum kosti verði hún aflífuð.

Í bréfi Björns Ingimarssonar (dags. 18. febrúar) til Dýraverndarfélags Íslands og Dýrahjálpar, sem fordæmdu aðgerðir þær er nú standa yfir, segist hann vonast til þess að farsæl niðurstaða náist í málinu, a.m.k. væri vilji til þess af hálfu sveitarfélagsins. Er sú farsæla lausn að hafa peninga af dýraverndunarfélaginu Villiköttum, en aflífa annars ketti sem eru geldir, örmerktir, bólusettir og ormahreinsaðir? Ketti sem eru við góða heilsu og engar skrásettar kvartanir eru til um? Við neitum að trúa því.

Þess ber að geta að síðan átak við föngun ómerktra katta á Fljótsdalshéraði hófst fyrir 10 dögum, hefur dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins ekki veitt svo mikið sem EINN ómerktan kött. Skyldi það hafa eitthvað með það að gera að Villikettir á Austurlandi hafa tekið inn tæplega 60 ómerkta ketti á svæðinu á liðnu ári, sveitarfélaginu að kostnaðarlausu? Eða hvar eru allir þessir ómerktu kettir sem herja á íbúa og nauðsynlegt var að fara í rándýra herferð gegn?

Gott og vel ef ekki er vilji til samstarfs við Villikettir á Austurlandi, en er virkilega ekkert þakklæti til staðar fyrir það góða starf sem félagið hefur unnið í þágu sveitarfélagsins? Við eigum erfitt með að sjá að svo sé, nema Kisa verði afhend okkur, félaginu að kostnaðarlausu. Við höfum vottorð frá dýralækni um að hún sé bólusett og ormahreinsuð og er lítið mál að færa örmerki hennar yfir á einstakling í dreifbýli, ef aðalvandamálið er að það sé skráð á frjáls félagasamtök. Við minnum á að það var lítið mál fyrir ykkur að sveigja reglurnar í lok desember, þegar við fengum samþykkt að taka við ómerktum kettlingi í haldi dýraeftirlitsins án þess að greiða lausnargjald, þar sem sá dýralæknir sem sinnir aflífun fyrir sveitarfélagið var í fríi. 

Með von um skjót viðbrögð, Villikettir.