Hjónin Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir eiga að baki langan og farsælan feril á sviði íþrótta. Blaðamaður sló á þráðinn til þeirra hjóna á heimili þeirra í Katar, forvitinn um líf á framandi slóðum, bakgrunn þeirra og framtíðarverkefni.

Hjónin eiga það sameiginlegt að hafa haft brennandi áhuga á íþróttum frá unga aldri. Lífið snerist um íþróttir og Aron Einar var ekki nema sautján ára þegar hann hélt utan á vit atvinnumennsku í fótbolta.

„Ég er alinn upp á Akureyri og tók þátt í flestöllum íþróttum sem ég komst í og það snerist allt um það. Eftir að hafa kláraði fyrsta árið í Menntaskólanum á Akureyri, fékk ég tækifæri í atvinnumennsku og flutti til Hollands þar sem ég lék fyrir AZ Alkmar næstu tvö árin,“ segir Aron Einar.

Kristbjörg iðkaði meðal annars frjálsar íþróttir, fimleika og fótbolta. „Ég er alin upp á Álftanesi og er það svona mitt „heima“ en bjó líka í nokkur ár úti á landi í litlum bæ sem heitir Stöðvarfjörður þegar ég var lítil. Ég hef alltaf verið á bólakafi í íþróttum, hvort sem það voru frjálsar, fimleikar eða fótbolti,“ segir Kristbjörg af hógværð. Hún er ein fremsta íþróttakona okkar Íslendinga í fitness og hefur unnið til þó nokkurra verðlauna bæði heima og erlendis.

Kristbjörg hefur lagt fitnessskóna á hilluna en hefur skapað sér gott orð sem einkaþjálfari og heldur úti vinsælum Instagram-reikning þar sem hún deilir ýmsum fróðleik tengdum hreyfingu, mataræði og öllu því sem viðkemur heilbrigðum lífsstíl í bland við að veita áhugasömum innsýn í lífið í Katar.

„Ég spái ekki í útlitinu þegar ég þjálfa, heldur því að verða heilbrigðari, sterkari og liðugri. Það sem mér finnst mikilvægt að komi frá mér sem þjálfara er þessi gullni meðalvegur. Þú þarft ekki að æfa mörgum sinnum í viku og fara eftir ströngu mataræði, þetta þarf ekki að vera flókið, ef þú kemst ekki í ræktina þá er fínt að fara út að labba. Það sem skiptir máli er að gefa sér tíma og hlúa að sér. Það er það sem ég legg áherslu á; heilbrigði og vellíðan.“

Kristbjörg með sonum sínum. Þau hjónin sakna auðvitað stórfjölskyldunnar enda erfiðara að skjótast á milli landa en áður.
Mynd/Mohamed Ali Abdulla

Hún er þekkt fyrir að vera alþýðleg og heldur ekki úti glansmynd af sjálfri sér á samfélagsmiðlum.

„Ég vil tengjast mínum fylgjendum persónulega og mér finnst nauðsynlegt að fólk sýni ekki alltaf bara hvað allt sé frábært. Þess vegna hef ég reynt að tala um það opinberlega þegar ég er uppgefin eða á erfiðan dag. Lífið er ekki alltaf dans á rósum en erfiðleikarnir ganga alltaf yfir. Mér finnst alveg magnað að ég hafi aldrei fengið nein leiðinleg viðbrögð eða neikvæðni í minn garð. Mér finnst gott að geta gefið eitthvað af mér og það er frábært ef ég get hjálpað einhverjum,“ segir Kristbjörg.

„Fólk heldur að þetta líf atvinnumanna úti í heimi sé glæst ævintýralíf en glansmyndir eru skaðlegar. Við verðum að geta talað um lífið eins og það er og ég er að glíma við það sama og allir aðrir.“

Kristbjörg missti nána vinkonu sína, Fanneyju Eiríksdóttur, á árinu. „Ég er alls ekki búin að vinna úr því að hafa misst hana. Ég er ekki búin að átta mig á því að hún sé dáin. Þetta er svo óraunverulegt, ég sakna hennar svo mikið. Ég talaði við hana á hverjum degi á Facebook og finnst stundum eins og hún gæti þess vegna slegið á þráðinn til mín og birst á spjallinu. Það er búið að vera svo mikið í gangi síðasta ár, ég hef ekki haft tíma til að meðtaka hlutina.“

Foreldrahlutverkið vinna

Kristbjörg hefur einmitt reglulega sagt frá foreldrahlutverkinu á Instagram-síðunni og viðurkennt að það geti verið erfitt að vera ein með strákana þegar Aron er á ferðalögum vegna vinnunnar. Þau segja foreldrahlutverkið mjög gefandi en krefjandi á sama tíma.

„Maður þarf að þroskast svolítið mikið og það breyttist ýmislegt þegar við vorum komin með tvo gaura svona eins og gengur og gerist en okkur finnst þetta passa við okkur. Hérna úti í Katar búum við í mjög fjölskylduvænu hverfi þar sem öryggisgæslan og annað er alveg tipp topp. Núna er gott veður fyrir Oliver til þess að fara út að leika sér og það er svona það sem maður var vanur að geta gert þegar maður var yngri. Maður fékk að fara út að leika sér og það er svona stemmingin yfir þessu hérna finnst mér. Foreldrahlutverkið er frábært og ég er hrikalega stoltur af þeim. Þetta gefur manni svo mikið,“ segir Aron sem er greinilega hreykinn af drengjunum.

„Þetta er virkilega krefjandi en á sama tíma mjög gefandi. Það er yndislegt að fá að upplifað það að vera foreldri en það er alveg hægt að segja að þetta sé vinna,“ segir Kristbjörg.

Fjarri stórfjölskyldunni

Þau Aron og Kristbjörg gengu í það heilaga árið 2017 og fékk brúðkaupið talsverða athygli bæði í íslenskum og erlendum fjölmiðlum, enda eitt þekktasta par landsins.

Saman hafa þau gengið í gegnum ýmislegt, bæði tap og sæta sigra innan vallar sem utan, allt frá því að þau kynntust fyrir sjö árum í gegnum sameiginlega vini. Kristbjörg lagði svo land undir fót og fluttist til Cardiff 2013 þar sem Aron gegndi veigamiklu hlutverki í liðinu frá árinu 2011 og þar til í lok síðasta árs.

Þau hjón eiga saman tvo drengi, þá Óliver og Tristan og aðspurð um hvernig fótboltalífið samræmist fjölskyldulífinu segja þau þetta allt saman hafa sína kosti og galla eins og bara allt annað.

„Auðvitað fylgir þessu fullt af fríðindum en sömuleiðis gallar eins og tíð ferðalög sem dæmi. Því að vera atvinnumaður í fótbolta fylgir mikil pressa og þeir þurfa alltaf að vera í standi. Við áttum ekki börn þegar ég flutti út til Arons á sínum tíma þannig að ég hef kynnst þessu á báða vegu. Þetta er vissulega öðruvísi en við erum búin að venjast vel og við reynum að gera það besta úr því,“ segir Kristbjörg. Hún viðurkennir þó að það geti tekið á að hafa stórfjölskylduna ekki nær en raun ber vitni.

Og þá sé erfitt að kveðja vini í flutningum á milli landa. „Ég eignaðist marga góða vini í Cardiff og fannst erfitt að kveðja þá. Þetta getur verið flókið, fólk kemur og fer. Þú þarft alltaf að setja þig í stellingar, læra að kynnast fólki, gefa færi á þér en svo veistu að þú munt flytja í burtu. Ég hugsa vel um vini mína á Íslandi og fjölskylduna, ég geri mér grein fyrir því hvað þau eru verðmæt. Það er þriggja tíma mismunur á milli Katar og Íslands og því getur það verið flókið en ég læt það virka.

Við finnum alveg fyrir því að fjölskylda og vinir eru náttúrulega ekki hjá okkur en við höfum verið ótrúlega dugleg að tala við fólk í gegnum Facetime. Við erum þakklát fyrir tæknina eins og hún er í dag en þetta hefur svo auðvitað verið erfiðara eftir að við fluttum til Katar. Þegar við bjuggum í Cardiff þá gátum við í rauninni hoppað heim ef okkur langaði til en hérna er þetta aðeins lengra ferðalag og aðeins flóknara með tvo gaura,“ segir Kristbjörg.

Strákarnir elska hitann og að leika sér úti. Aron Einar hefur meiri tíma með fjölskyldunni í Katar.
Mynd/Mohamed Ali Abdulla

Hefur meiri tíma

Aron bendir þó á að fótboltalífið í Katar sé um margt ólíkt því sem þau hafi átt að venjast, sé horft til fjölskyldunnar. „Þrátt fyrir að það sé erfiðara fyrir fjölskylduna okkar að koma út til okkar og fyrir okkur að fara heim, þá er ég núna að spila fótbolta sem er ólíkur því sem ég hef spilað áður. Það er ekki langt fyrir mig að fara í ferðalög fyrir leiki, svo ég hef í rauninni sjálfur meiri tíma fyrir fjölskylduna heima fyrir. Það er gríðarlegur kostur við Katar. Menningin í kringum fótboltann hér er einfaldlega öðruvísi,“ segir hann og talið berst að drengjunum, fjögurra ára og 15 mánaða. Sá eldri gengur í breskan skóla en sá yngri nýtur þess enn að vera heima hjá Kristbjörgu.

Menningin og siðirnir í Katar eru talsvert frábrugðnir því sem þekkist í Evrópu og Kristbjörg segist hafa átt örlítið erfiðara með breytinguna. „Fyrir mína parta er þetta kannski svolítið öðruvísi þar sem ég er vanur því að vera í kringum ólíka menningarheima í fótboltanum. Ég hef spilað með leikmönnum hvaðanæva að úr heiminum, svo menningarsjokkið er vafalaust minna fyrir mig. En það er alveg ljóst að lífernið og menningin hér er allt önnur en í Bretlandi,“ segir Aron og Kristbjörg tekur undir.

„Við erum alveg ótrúlega ánægð og það kom mér eiginlega á óvart hversu fljót við vorum að koma okkur fyrir og fara að líða vel hérna. Ég hafði mestar áhyggjur af því og viðurkenni alveg að þegar við komum þá var ég rosalega óörugg. Bæði vegna þess að maður þekkir þetta ekki og svo eru alls konar reglur sem maður kann ekki á. Eins og til dæmis að þá þykir stundum ekki við hæfi að ég rétti fram höndina til karlmanns til þess að heilsa honum heldur á ég að bíða eftir því að hann rétti mér höndina. Eins með klæðaburð og annað, en þetta er eitthvað sem maður lærir og við berum auðvitað virðingu fyrir menningunni hér. Það eru sannkölluð forréttindi að fá að upplifa og kynnast annarri menningu með þessum hætti,“ segir Kristbjörg og bætir við að það sé heilmargt við menninguna sem þau eru ekki vön heima á Íslandi.

„Konur klæðast búrkum og það tók tíma að venjast þessu. Ég þarf líka að gæta mín, á vissum stöðum í borginni má ég til dæmis ekki láta sjást í axlir eða í bert hold fyrir ofan hné. Þegar hitastigið fer yfir fjörutíu gráður þá getur þetta orðið krefjandi. Maður er hins vegar fljótur að venjast þessu.“

Enn eitt ævintýrið

Þau Aron og Kristbjörg eru einstaklega samhent og tóku ákvörðun fyrir um þremur árum síðan að fara út í enn eitt ævintýrið og nú er afrakstur þess að líta dagsins ljós en það er AK Pure Skin, húðvörur, sem koma á markað þann 13. desember næstkomandi. Hugmyndin kviknaði þegar Kristbjörg var barnshafandi og leiddi hugann að lítilli eftirspurn eftir húðvörum sem eru laus við ýmis bannefni.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á húðumhirðu og fór að leiða hugann enn meira að henni þegar ég var ólétt að yngri stráknum okkar, þar sem mikil umræða var í gangi um hvað má og hvað má ekki nota þegar maður er óléttur ásamt því að það er oft verið að tala um þessi bannefni eins og þegar talað er um FREE of paraben, PEG-efni og svo framvegis. Ég hafði samband við Pharmarctica á Grenivík og spurði hvort þau hefðu tök á að fara í þetta með okkur og úr varð gott samstarf.

Það sem okkur fannst mikilvægast að setja fókusinn á var rakinn. Húðin er okkar stærsta líffæri og til að hún sé frískleg og heilbrigð þá er alveg jafn mikilvægt að gefa henni raka eins og líkamanum sjálfum.“

Kristbjörg segir framleiðslu á Íslandi lúta ströngum kröfum og þau hafi fengið að fylgjast með ferlinu frá upphafi til enda.

„Persónulega finnst okkur það vera mikill kostur að vörurnar séu framleiddar á Íslandi undir GMP-aðstæðum en það þýðir að unnið er undir mjög ströngum kröfum bæði í sambandi við framleiðsluaðstöðu og þá verkferla sem eru notaðir. Við vorum með í ferlinu frá a-ö, fengum að blanda efnin og vera inni í málunum allan tímann. Við erum stolt af því að segja frá því að innihaldsefnin eru valin eftir gæðum með sem besta samverkun í huga og til að ná fram ákveðnum eiginleikum vörunnar. Auk þess eru vörurnar framleiddar úr hreinu íslensku vatni sem hljómar kannski eins og klisja en er mjög mikilvægur þáttur framleiðslunnar því vatnið okkar er svo hreint. Það gerir okkur kleift að nota færri efni í vörurnar heldur en ef þær væru framleiddar þar sem vatnsgæðin eru verri.“

Aron Einar og Kristbjörg setja af stað húðvörulínu í næstu viku sem er framleidd á Grenivík.
Mynd/Mohamed Ali Abdulla

Langt, strangt en skemmtilegt

„Svo er gaman að segja frá því að nafnið AK Pure Skin er samsett úr nöfnunum okkar og lógóið sem við notum var upphaflega hannað fyrir brúðkaupið okkar, svo þetta er eins persónulegt og það getur orðið. Þetta er búið að vera langt, strangt, skemmtilegt og virkilega lærdómsríkt ferli. Það getur enginn búið til neitt eða neina vöru sem allir fíla eða sem allir eru ánægðir með en við getum stolt sagt að við getum staðið 100% á bak við þessar vörur,“ segir Kristbjörg.

Aron Einar segist ekki hafa notað mikið af húðvörum hingað til.

„Þetta er allt annað en ég hef vanið mig á að gera svo fyrir mig er mjög gaman að fá að taka þátt í einhverju sem maður hafði ekki hundsvit á áður. Ég hafði fram til þessa ekki notað mikið af húðvörum og minnist þess þegar ég var í förðunarstólnum fyrir sjónvarpsviðtal, að það fyrsta sem ég heyrði var alltaf að ég væri með svo þurra húð. Þess ber að geta að ég hef ekki fengið þær athugasemdir eftir að við fórum á fullt í að prófa okkur áfram í þessu,“ segir hann og bætir hlæjandi við; „Ég var satt að segja hálfgert tilraunadýr í öllu ferlinu.“

Jólaandinn á Íslandi

Fjölskyldan er því komin til landsins og dvelur hér í nokkra daga til að ýta AK Pure Skin úr vör rétt fyrir jólin.

„Við viljum nýta þetta vel en það er ekki oft sem ég fæ sjálfur frí í desember og þetta er í fyrsta skiptið í 11 ár sem ég get komið heim í aðdraganda jóla, svo það er einstaklega skemmtilegt að komast aðeins heim og upplifa þessa alíslensku jólastemningu áður en við höldum aftur út til Katar,“ segir Aron.