Einn þeirra tólf sem létu lífið í skotárás á barnum Borderline Bar and Grill nærri Los Angeles á miðvikudaginn, lifði af skotárás í Las Vegas á síðasta ári. Árásarmaðurinn var fyrrverandi hermaður og var eigandi skotvopnanna sem hann notaði til ódæðisins. 

Telemachus Orfanos, 27 ára karlmaður, var einn þeirra sem lifði af verstu skotárás í sögu Bandaríkjanna þegar 58 voru skotnir á skemmtistað í Las Vegas. Orfanos lést á miðvikudaginn þegar svartklæddur karlmaður á þrítugsaldri réðst inn á bar í Thousand Oaks, norðvestur af Los Angeles, og skaut á bargesti. Sérstök kántrýdagskrá var í fullum gangi þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða.

„Sonur minn var í Las Vegas með hópi vina og sneri aftur heim. Hann kom ekki heim í gærkvöldi,“ sagði móðir hans við fréttastofuna ABC News. „Ég vil ekki bænir, ég vil ekki hugsanir, ég vil hertari byssulöggjöf.“

Þá er haft eftir föður Orfanos að það sé kaldhæðni örlaganna að sonur hans hafi lifað af mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna,til þess eins að vera myrtur í heimabæ sínum.

Árásarmaðurinn er hinn 28 ára Ian David Long, fyrrverandi hermaður, sem lést á vettvangi.