Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- og orkumálaráðherra, segir að Ísland geti gert betur þegar kemur að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar. Innan við eitt prósent af hafsvæði Íslands telst vera hafverndarsvæði, en það ætti að vera minnst tíu prósent samkvæmt heimsmarkmiðum.

„Þetta er ekki bara á mínu borði, heldur líka matvælaráðherra. En ég held að aðalatriðið sé að við höfum almennt góða sögu að segja þegar kemur að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar,“ segir Guðlaugur Þór, en ítrekar að það sé alltaf hægt að gera betur.

Megintilgangur verndarsvæða er að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika, endurheimt vistkerfa og sjálfbærri nýtingu.

„Það er auðvitað forgangsmál hjá okkur að líta til líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu eins og annars staðar. Til þess að setja það í samhengi þá eru mest áberandi mistökin sem Íslendingar hafa gert geirfuglinn. Við viljum ekki vera kynslóðin sem að bætir á þann lista,“ segir Guðlaugur.

Að hans sögn kemur Ísland vel út í þessum málum samanborið við mörg lönd. Ef litið er til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um hafverndarsvæði eru Íslendingar víðs fjarri því að uppfylla þau markmið, sem kveða á um að þjóðir skilgreini tíu prósent af hafsvæðum sínum sem verndarsvæði. Tímamörkin voru 2020.

„Ógnirnar sem steðja að líffræðilegri fjölbreytni eru mun fleiri heldur en menn kannski myndu ætla, meðal annars loftslagsbreytingar,“ segir Guðlaugur.