Vísindatímaritið Cell birti fyrr í vikunni grein eftir vísindamenn við Sanger-stofnunina og Cambridge-háskóla, þar sem sýnt er fram á að sómatískar stökkbreytingar í ristli eru tvöfalt algengari í sáraristilbólgu en í venjulegum ristli, sem eykur líkurnar á breytingum sem valdið geta krabbameini.

Sigurgeir Ólafsson, doktorsnemi í erfðavísindum við Sanger Institute og háskólann í Cambridge, leiddi vinnu hópsins og er fyrsti höfundur greinarinnar sem byggir á annarri grein sem birtist í Nature í fyrra.

„Saga þessarar greinar er nokkuð stíf og þetta var svolítill rússíbani, vegna þess að ég heyrði fyrst af því í september að tveir japanskir hópar væru að vinna í mjög svipuðum hlut,“ segir Sigurgeir, sem var einn 23 höfunda fyrri greinarinnar en leiddi alla vinnuna að þessu sinni.
„Og þá gáfum við allt í botn. Settum allt á fullt og maður var bara að vinna í sextán, átján tíma á dag. Alla daga. Helgar og allt saman,“ segir Sigurgeir um ofurkappið sem lagt var á að saxa á forskot Japananna.

„Bríet kom einmitt til mín einhvern tímann um helgi og eldaði bara fullt af mat fyrir mig og setti í frysti til að ég gæti bara haldið áfram að vinna á fullu og þyrfti ekki að eyða tíma í að elda eða neitt svoleiðis.“
„Þú vilt alltaf vera fyrstur til að birta,“ skýtur Bríet inn í og bætir við að kærastinn megi vel vera ánægður með sig, nú þegar greinin hefur loksins fengist birt eftir mikla vinnu og taugastríð. „Þetta eru tímamót hjá honum.“

Skúbb er skúbb

Sigurgeir bendir á að það er ekki síður mikilvægt að „skúbba“ í fræðaheiminum en fjölmiðlum. „Við sendum greinina upprunalega inn til Nature. Það gerist svo daginn sem ég var að koma heim í jólafrí, að þeir birtu hinar tvær greinarnar og höfnuðu minni. Ég var á leiðinni út á flugvöll þegar rútan bilaði, þannig að ég missti af fluginu mínu svo að það var leiðinleg nótt sem ég sat þarna einn á einhverju flugvallarhóteli og las hinar greinarnar,“ segir Sigurgeir og rifjar upp þegar dramatíkin náði hámarki í desember.

Bríet Dögg Bjarkadóttir og Sigurgeir Ólafsson eru ekki svar vísindanna við Júlíu og Rómeó þótt þau stundi doktorsnám við Oxford annars vegar og Cambridge hins vegar.
Fréttablaðið/Valli

„Bara til þess að sjá að þar var verið að finna alveg sömu hluti,“ segir hann um japönsku greinarnar tvær sem fjölluðu um mjög líka hluti. Þessi nótt var erfið en þetta er að fá mjög farsælan endi, en það var svolítið erfið fæðing að koma þessari grein út.“

Sigurgeir segir að í slíkri tilfinningasúpu kraumi persónulegur metnaður og akademískur, auk mikilvægis þess fyrir orðsporið í fræðunum, að vera fyrstur að kynna tímamótaniðurstöður. „Og við óttuðumst að enginn myndi vilja greinina eftir þetta og við fengum nokkrar neitanir, en Cell voru sammála okkur, að okkar grein sýndi ýmislegt sem hinar gerðu ekki og væri mikilvæg þess utan,“ segir Sigurgeir sem ætlar að leyfa sér að vera dálítið ánægður með sjálfan sig.

„Þetta var mikill léttir og maður getur hálfhlegið að þessum vandræðum núna.“ Sigurgeir bendir einnig á að þegar allt kemur til alls megi líka fagna því að samhljómur sé með greinunum þremur.

„Greinarnar frá Japan hafa fundið svolítið það sama og það er náttúrlega bömmer að þær skúbba svolítið að hluta til. Maður vill vera fyrstur með fréttirnar einhvern veginn. En á sama tíma þá er líka gott að finna bara að þetta er rétt. Ég get þá verið alveg viss um að ég klúðraði engu í þessu, þegar algerlega ótengdir hópar, einhvers staðar í Japan, finna alveg sama hlutinn. Það er náttúrlega líka svakalega gott fyrir vísindin, og þess vegna fyrir sjúklingana, að sjá að þetta sé svona pottþétt dæmi.“

Krabbamein og frjósemi

Á meðan Sigurgeir rannsakar frumubreytingar í ristli í Cambridge, sér Bríet fyrir endann á doktorsnámi sínu í læknavísindum við Oxford þar sem hún fæst við frjósemis- og æxlunarlíffræði.

„Ég er að skoða áhrif krabbameinslyfja á frjósemi hjá ungum stúlkum,“ segir Bríet. „Krabbameinsmeðferðir geta valdið ófrjósemi í körlum og konum, og konur sem fá krabbamein geta látið frysta úr sér egg eða fósturvísa og notað þá seinna til þess að verða óléttar,“ heldur Bríet áfram og bendir á að þessar ráðstafanir varðveiti í rauninni ekki eðlilega frjósemi eða tíðahring, heldur gefi aðeins tækifæri á getnaði seinna meir.

Listamaðurinn Alex Cagan, vinur Sigurgeirs og vísindamaður við deildina hans, sér vin sinn fyrir sér að sækja sýni í ristilnámu þegar hann reynir að lýsa rannsókninni með skopteikningu.
Mynd/Alex Cagan

„En það er líka hægt að frysta eggjastokkinn sjálfan og græða hann síðan í aftur síðar. Það endurræsir þá hormónakerfið í konunni, en það sem ég vildi skoða upprunalega í doktorsverkefninu var hvort það væri hægt að varðveita frjósemi með minna inngripi, með því að gefa inn lyf með krabbameinslyfjunum sem myndi vernda eggjastokkana fyrir áhrifum þeirra.“

Bríet segist síðan hafa rekist á að enn eigi eftir að fylla inn í ýmsar eyður í vísindunum áður en þessi leið verði fær þannig að fókusinn í rannsóknum hennar hafi færst meira á áhrif krabbameinslyfjanna á eggjastokkana. Það megi því segja að þau Sigurgeir fáist bæði við krabbamein á óbeinan hátt.

Ekki þarf að fjölyrða um að Oxford og Cambridge eru skólar í sérflokki en af hverju eruð þið ekki bara í sama skólanum?

Sigurgeir svarar spurningunni með hlátri en Bríet hefur meira um þetta að segja. „Það misfórst. Við vorum svona að stefna á að vera kannski á sama stað, en doktorsnámið sem mig langaði að fara í er bara í boði í Oxford og Sigurgeiri leist betur á það sem var í boði í Cambridge.“

„Ja, en þeir vildu mig heldur ekki í Oxford. Við skulum ekkert vera að ritskoða það sko,“ segir Sigurgeir á léttum nótum. „Nei, ég klúðraði svolítið viðtalinu mínu í Oxford, held ég, og komst ekki inn þar.“ Þá hafi staðið eftir möguleikinn að fara hvort í sína borgina.


„Það var fyrir bestu, því Cambridge er sannkölluð Mekka erfðafræðinnar. Þar þróaði Fred Sanger fyrst tæknina til að raðgreina DNA og raðgreindi fyrstu lífveruna, þar ákvörðuðu Watson og Crick byggingu DNA-sameindarinnar og þar var stærsti hluti erfðamengis mannsins raðgreindur, þegar það var gert í fyrsta sinn upp úr aldamótum. Það er góðlátlegur rígur milli Cambridge og , en þegar kemur að erfðafræði finnst manni nú Cambridge hafa vinninginn.“

Vísindaleg fjarbúð

„Svo hittumst við alltaf um helgar,“ heldur Bríet áfram. „Sem er nú alveg svolítið þreytandi lífsstíll,“ bætir Sigurgeir við. „En á sama tíma gæti það nú verið verra.“
Í því sambandi bendir Bríet síðan á að það hafi sína kosti að geta unnið langt fram á kvöld, án þess að hafa áhyggjur af því að verða of sein í mat og annað slíkt. „Við tökum okkur svo bara almennilegt frí um helgar og þá aðskilur maður svolítið vinnu og frítíma.“

Bríet og Sigurgeir byggja á sama grunni, en þau kynntust þegar þau lærðu lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands. Þau segja hins vegar fræðilegar leiðir hafa skilið nokkuð fljótt, þannig að þegar vísindaparið hittist er það ekki á bólakafi fræðanna.

„Aðferðirnar sem við notum núna eru svolítið svipaðar,“ segir Bríet og Sigurgeir bætir við að vissulega vinni þau bæði með vefi. „Þannig að það er svona vefjavinnslan sem við höfum aðeins getað talað um. En annars er ótrúlegt hversu fljótt við hættum að skilja hvort annað eftir að hafa tekið sama grunnnámið.

„Sambandið okkar er búið að vera 50 prósent í fjarbúð,“ segir Bríet, sem hélt beint til Oxford í mastersnám á meðan Sigurgeir tók þann hluta hjá Íslenskri erfðagreiningu.

„Þetta eru búnar að vera svolitlar fórnir,“ segir Sigurgeir og hlær, um leið og hann vill ekki útiloka að aðskilnaður geti treyst og styrkt sambönd. „Kannski hefur það nefnilega gert það. Ég veit það ekki. Við erum allaveganna ekki orðin þreytt hvort á öðru þegar við sjáumst um helgar.“

Frjósöm vísindi

En hvað er það sem heillar við lífefna- og sameindalíffræði og leiddi ykkur út á þessa braut?

„Ég veit það ekki. Ég hef bara alltaf haft áhuga á vísindum og líffræði og fjölskyldan mín er öll svona frekar vísindasinnuð,“ segir Bríet hugsi. „Já sko, mér fannst lífefnafræðin alveg geggjuð. Bara strax í menntaskóla,“ segir Sigurgeir. „Fannst hún svo skemmtileg og gaman að stúdera þetta.“

„Mér finnst líka svo heillandi við þessi frjósemisfræði að þau eru svo praktísk,“ heldur Bríet áfram og bendir á hin sterku tengsl fræðasviðs hennar við daglegt líf og tilfinningar fólks. „Maður getur unnið við þetta án þess að vera bara föst inni á rannsóknarstofu að skoða eitthvert eitt, lítið prótein sem enginn nema maður sjálfur veit eitthvað , á meðan það skilja þetta allir.“

Og þegar frjósemi er rædd á mannamáli berst talið óhjákvæmilega að máli málanna og sambandi aldurs og frjósemi, sem Bríet telur fólk oft gleyma þegar það fer að huga að barneignum.
„Hjá körlum skiptir þetta svo sem engu máli. Þeir eru bara frjóir alla daga, alla ævi, en hjá konum minnkar frjósemin hægt og rólega og þá sérstaklega um og eftir 35 ára aldur. Ég held að meðalaldur fyrir fyrsta barn sé kominn yfir þrítugt hjá konum í fjölmörgum löndum.“

Sigurgeir skýtur inn í að sjálfsagt sé þessi þáttur ekkert endilega fólki ofarlega í huga þegar það ákveður að klára til dæmis nám og hugsi með sér að það sé alltaf hægt að eignast barn seinna.
„Þú getur ekki breytt þessari líffræðilegu klukku,“ segir Bríet, sem sér ekki fram á að vísindin muni setja strik í þennan reikning í náinni framtíð. „Eftir því sem konan er eldri, þá verður líka allt við meðgöngu erfiðara líkamlega. Þannig er það bara.“

Menntarígur í Bretabæli

Þar sem Bríet og Sigurgeir búa hvort í sinni borginni sáu þau fram á að eiga á hættu að þurfa að vera aðskilin allan þann tíma sem COVID-19 setti samkomum og ferðafrelsi skorður í Bretlandi. Þau sáu sér því þann kost vænstan að forða sér heim til Íslands og héðan flugu þau aftur út í vikunni, eftir að hafa unað hag sínum vel síðan í mars.

„Við erum búin að hafa það gott og vorum við mjög fegin að koma heim,“ segir Sigurgeir sem sér einnig fyrir endann á fjarbúðinni þar sem Bríet klárar í Oxford eftir áramótin.

„Hún átti að klára núna í október en faraldurinn seinkaði því aðeins, en þá ætlar hún að flytja til mín. Ég klára ekki fyrr en í október á næsta ári, en þetta er ákveðið þannig að þá lýkur loksins þessari þriggja ára fjarbúð,“ segir Sigurgeir og Bríet segist brosandi ætla að láta sig hafa það að flytja á „hinn staðinn“ með vísan til rómaðs núnings milli háskólabæjanna.
„Hinn staðurinn er helst ekki nefndur á nafn,“ segir Sigurgeir um Oxford, þar sem lítið fer fyrir Cambridge í daglegu tali. Bríet segir þau þó síður en svo vera í harmrænum sporum hinna forboðnu elskenda Júlíu og Rómeós.
„Nei, þetta er bara svolítill rígur. Svona MR-Versló og þetta er rosalega algengt. Maður hittir mjög mörg pör sem eru í svipaðri stöðu.“