Sænskur maður á sex­tugs­aldri er grunaður um að hafa tekið út líf­eyri látins föður síns í sex­tán ár. Alls hafði maðurinn um 1,4 milljónir sænskra króna upp úr krafsinu og er hann nú á­kærður fyrir fjár­svik. Frá þessu greinir frétta­miðillinn SVT.

Í febrúar í fyrra barst líf­eyris­sjóði í Sví­þjóð nafn­laus á­bending um mann á tí­ræðis­aldri sem enn var skráður á heimilis­fang í borginni Eskil­s­tuna, þrátt fyrir að hafa dáið fyrir mörgum árum.

Yfir­völd hófu að rann­saka málið og í kjöl­farið var maðurinn boðaður á fund til að bera kennsl á sjálfan sig. Hann lét aldrei sjá sig.

Lést í Búkarest árið 2001

Eftir nánari eftir­grennslan fengu sænsk yfir­völd af­rit af dánar­vott­orði mannsins frá sænska sendi­ráðinu í Búkarest, sem stað­festi að maðurinn hafði látist í Rúmeníu árið 2001.

Þrátt fyrir það hafði hann þegið líf­eyris­greiðslur frá árinu 2004 að and­virði 1,4 milljón sænskra króna, sem jafn­gildir rúm­lega 18,5 milljónum ís­lenskra króna.

Hafði að­gang að reikningi pabba síns

Í ljós kom að sá sem sótti um líf­eyri fyrir hönd mannsins var sonur hans, sem skráður var á sama heimilis­fang og hafði pró­kúru fyrir föður sinn.

Málið var kært til lög­reglu og er sonurinn nú á­kærður fyrir fjár­svik. Sænski líf­eyris­sjóðurinn hefur krafist skaða­bóta að and­virði 750 þúsund sænskra króna fyrir greiðslur sem maðurinn fékk frá árinu 2012.

Þrátt fyrir að hafa einnig þegið greiðslur frá árunum 2004 til 2011 var ekki hægt að sækja manninn til saka fyrir fjársvik fyrir þann tíma þar sem það tímabil er fyrnt.

Neitar sök

Hinn á­kærði neitar sök í málinu og sagðist við yfir­heyrslur ekki muna hvort það hafi verið hann sem sótti um líf­eyrinn. Spurður að því hver það annars geti hafa verið svaraði hann: „Kannski Guð.“

Réttar­höld fóru fram í vikunni í héraðs­dómi Eskil­s­tuna og er niður­stöðu að vænta eftir tvær vikur.