Ó­þægindi í hálsi benda iðu­lega til þess að kvef sé á næstu grösum, fyrir konu í Tokyo reyndist það þó vera nokkuð langt frá raun­veru­legri or­sök háls­bólgunnar sem hrjáði hana. Ó­þægindin voru til staðar þar sem lifandi ormur hafði komið sér fyrir inni í öðrum háls­kirtli hennar.

Læknar á St. Luke´s sjúkra­húsinu fjar­lægðu orminn með plokkara eftir að sjúk­lingurinn hafði kvartað undan verkjum í hálsinum. Fjallað var um málið í rann­sókn í the American Journal of Tropi­cal Medicine and Hygiene og á vef Guar­dian.

Lifði aðgerðina af

Ormurinn, sem var 38 milli­metrar á lengd og einn milli­metri á breidd, var enn lifandi eftir að hann hafði verið fjar­lægður með valdi frá sama­stað sínum í vinstra háls­kirtli konunnar. Þá fóru ein­kenni konunnar hratt batnandi eftir að­gerðina.

Ormurinn var auð­kenndur sem þráð­ormur af tegundinni nematode roundworm, sem er einn af fjölda sníkju­dýra sem geta sýkt fólk sem borðar hrátt kjöt eða fisk.

Fleiri tilfelli fylgja sushi og sashimi

Konan, sem var 25 ára, stað­festi að hún hafi borðað hráan fisk af ýmsu tagi fimm dögum áður en ormurinn var fjar­lægður.

Höfundur rann­sóknarinnar segir konuna því miður ekki vera eina fórnar­lamb slíkrar sýkingar og bendir á að á­líka til­fellum hafi fjölgað til muna eftir að sushi og sas­himi fór að ryðja sér til rúms um allan heim.