Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, vill leiða lista þeirra í annað sinn í Reykjavík. Það tilkynnti hún á samfélagsmiðli sínum í dag.
Þar segir Líf að hún brenni fyrir borgarsamfélaginu og fer yfir meirihlutasamstarfið síðustu fjögur árin og þau verkefni sem hún hefur komið að en hún er eini borgarfulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn.
„Síðustu fjögur ár hafa verið krefjandi á margan hátt, ekki síst vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans en þau hafa líka verið gjöful og lærdómsrík og fram undan er mikill uppskerutími,“ segir Líf.
Hún segist stolt af mörgum verkefnum meirihlutans en að mörg hefði hún viljað sjá þróast á annan hátt og að hún vilji leggja áherslu á þau á næsta kjörtímabili.
„Vil ég þar nefna menntamálin og umgjörð þeirra, viðhaldsmál húsnæðis, fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks, fyrirkomulag borgaralýðræðis og að gerðar séu enn meiri kröfur í hönnun borgarinnar m.t.t almannarýma og fagurfræði. Eins mun ég beita mér fyrir enn fleiri breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur til auka rými fyrir vistvæna ferðamáta og fletta upp malbiki. Þá vil ég fella út fyrirhuguð göng í gegnum Öskjuhlíð og gera mislæg gatnamót víkjandi í skipulaginu,“ segir Líf í tilkynningu sinni sem má lesa í fullri lengd hér að neðan.
Tilkynnt var í dag að ákveðið verður að hafa forval um þrjú efstu sætin hjá VG í Reykjavík. Líf er sú fyrsta sem tilkynnir um framboð sitt hjá flokknum í Reykjavík. Hún hefur verið borgarfulltrúi frá árinu 2016 en var fyrir það varaborgarfulltrúi en tók við sem borgarfulltrúi árið 2016 þegar Sóley Tómasdóttir hætti í borgarstjórn.