Rædd voru sameiginleg markmið sem varða hagsmunagæslu barna í heimilisofbeldismálum þegar stjórnarkonur Lífs án ofbeldis funduðu með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, í morgun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.
„Ráðherra lagði mikla áherslu á að hagsmunir barna í þeirra eigin málum trompi allt annað,“ segir í tilkynningunni. Þau segja ljóst að brennandi áhugi sé í ráðuneytinu fyrir því að gera betur við að efna skuldbindingar stjórnvalda um að setja hagsmuni barna alltaf í forgang.
„Á fundinum voru ræddar þær brotalamir sem Líf án ofbeldis sér kerfisbundið í málum barna sem koma úr heimilisofbeldi, dæmi um mæður sem hafa þurft að flýja land með börnin sín, börn sem fá ekki áheyrn í kerfinu.“
Allir sem viðstaddir voru fundinn voru sammála um hversu brýn nauðsyn er að skýra samspil á milli barnaverndarlaga og barnalaga þegar kemur að ákvörðun í forsjár- og umgengnismálum, þar sem fyrir liggur rökstuddur grunur um ofbeldi gegn barni og nákomnum.
Samtökin treysta því að dómsmálaráðherra muni einnig stíga öll nauðsynleg skref í þessa sömu átt að hagsmunum barna. Þau segja málaflokkinn vera umfangsmikinn og að hann varði líf og heilsu barna til framtíðar.
„Líf án ofbeldis fagnar því að samtalinu sé komið á við mennta- og barnamálaráðuneytið og mun í framhaldinu halda áfram að upplýsa barnamálaráðherra um reynslu brotaþola heimilisofbeldis af kerfinu svo hún nýtist til úrbóta í þeirri vinnu sem er fyrir höndum í ráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni.
Líf án ofbeldis eru baráttusamtök mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengis- og forsjármálum.