Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir ákvörðun sína um flokkurinn muni ekki sækjast eftir því að vera í meirihluta í Reykjavík tekna af yfirvegun.

Frá þessu greinir Líf í Facebook-færslu í kvöld.

Líf greindi frá ákvörðuninni á sunnudaginn og hefur hún verið gagnrýnd.

Líf segir í Facebook-færslu sinni að enginn stýri ákvörðunum hennar og að hún hafi vissulega borið þær undir hóp fólks sem hún treysti og sem fylgi henni að málum.

„Mér finnst ömurlegt að lesa samsæriskenningar. Ég er fullorðin kona í forystu fyrir hreyfingu. Ég tek ákvarðanir mínar sjálf,“ segir Líf og bætir við að það sé gott að finna stuðning félaga sinna í VG.

„Sparið ykkur samsæriskenningar góða fólk! Ég vinn fyrir alla borgarbúa. Líka þá sem eru á móti mér," segir Líf að lokum.