Yfirvöld ræða nú breytingar á skólastarfi framhaldsskóla, sem gætu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tekið gildi strax á morgun.

Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir að 51 nemandi í skólanum hafi á einum degi í vikunni verið með Covid, eða 7,5 prósent allra nemenda.

Hún segir að námsráðgjafar skólans merki mikinn mun á aukinni vanlíðan í nemendahópnum. Í sumum bekkjum séu margir nemendur í vandræðum.„Það er alveg ljóst að þessi Covid-tími hefur haft mikil áhrif á nemendur til hins verra, en þau bera sig ótrúlega vel og vilja mikið leggja á sig, ekki síst til að fá að vera í staðkennslu,“ segir Elísabet.

Ný norsk rannsókn mælir aukið þunglyndi meðal barna og ungmenna. Dæmi eru um að ungmennin syrgi glötuð æskuár. „Ég held að áhrifin af því sem þau missa af komi kannski helst fram síðar,“ segir Elísabet.

Elísabet Siemsen, rekstor Menntaskólans í Reykjavík.

Fréttablaðið hefur rætt við foreldra sem staðfesta orð rektors MR og lýsa vaxandi áhyggjum af líðan barna sinna.

Doði, minni orka og skert athafnagleði eru nefnd til sögunnar. Bóas Valdórsson, skólasálfræðingur við Menntaskólann í Hamrahlíð, segir að áhrifin séu verst á þann hóp sem stóð höllum fæti áður en Covid kom til sögunnar.

Fyrir heimsfaraldur biðu um 600 börn greiningar á Þroska- og hegðunarstöð og ríflega 100 ungmenni biðu eftir meðferð eða annarri þjónustu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir taldi í mars árið 2020 að faraldurinn kynni að ganga yfir á einum mánuði eða tveimur.

„Auðvitað er sviðsmyndin allt önnur en við töldum að hún yrði,“ segir Bóas. Í fyrrasumar var kynnt rannsókn atferlis- og félagsvísindamanna meðal 59.000 íslenskra unglinga. Niðurstaðan var að slæm áhrif hefðu orðið af faraldrinum, einkum á andlega heilsu stúlkna. Að sögn Bóasar eru tengsl grunnþáttur í lífi mannskepnunnar.„Svo er líka ofboðslegt álag að vera svona lengi í óvissuástandi.“

Bóas Valdórsson, sálfræðingur.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Bóas segir skilaboðin til foreldra að halda börnum virkum, vera með dagskrá og gæta þess að börnin loki sig ekki af.

„Við verðum líka að passa, einkum varðandi yngri börnin, að Covid-umræðuefnið sé ekki stöðugt yfir matarborðinu, við verðum að setja það til hliðar.“Bóas segir að ef fólk dregur sig í langan tíma inn í eigin skel, sýni rannsóknir að erfiðara sé að koma til baka. „En við sjáum líka dæmi þess að nemendur hafi blómstrað í fjarnámi.“

Hjá Landlæknisembættinu fengust ekki upplýsingar í gær um hvort boðað verður til sérstaks átaks til að bæta hag barna og ungmenna.