Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að þau sveitarfélög í Póllandi sem lýst hafi sér sem LGBT-lausum eigi ekki að fá styrki úr Uppbyggingarsjóði EES. Hann er fjármagnaður af Íslandi, Noregi og Liechtenstein og eru utanríkisráðherrar þjóðanna sammála um þetta og hafa komið áhyggjum sínum á framfæri við pólsk yfirvöld.

Þetta segir Guðlaugur í svari við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, óháðs þingmanns, um fjárveitingar til LGBT-lausra svæða.

Yfirlýsingar einstakra sveitarstjórna Póllands, flestra í suðausturhluta landsins, hafa verið harðlega gagnrýndar af Evrópusambandinu og fleirum. Þykja þær þó vera mjög í anda stefnu Laga og réttlætis, stjórnarflokksins í Póllandi, sem byggir á íhaldssömum, þjóðlegum gildum. Líkt og í Rússlandi og víðar í Austur-Evrópu hefur réttindum LGBT-fólks farið hrakandi á undanförnum árum í Póllandi.

Í EES-samningnum kemur fram að öll starfsemi sem fjármögnuð er skuli byggjast á sameiginlegum gildum um virðingu fyrir mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkinu og virðingu fyrir mannréttindum.

Samkvæmt Guðlaugi hefur stjórn Uppbyggingarsjóðsins sent tvö bréf til pólskra yfirvalda hvað þetta varðar, en því miður hafi yfirlýsingum um LGBT-laus svæði fjölgað. Segir hann hlutverk landstengiliðs að tryggja að farið sé eftir reglum sjóðsins. „Að öðrum kosti muni gjafaríkin breyta eða stöðva greiðslur, í samræmi við reglur sjóðsins.“