Lög­reglu­yfir­völd í Spoka­ne í Was­hington í Banda­ríkjunum hafa loksins komist að því hver myrti hina níu ára gömlu Candice Rogers árið 1959.

Candice, eða Can­dy eins og hún var jafnan kölluð, hvarf í út­hverfi Spoka­ne, næst fjöl­mennustu borgar Was­hington­ríkis, þegar hún var að selja myntur úti á götu í mars 1959.

Sex­tán dögum síðar fannst lík hennar í skóg­lendi skammt frá heimili hennar og leiddi krufning í ljós að hún hafði verið kyrkt.

DNA-rann­sókn hefur nú leitt í ljós að morðinginn var John Reigh Hoff, en John þessi svipti sig lífi árið 1970, 31 árs að aldri.

Í um­fjöllun Daily Beast kemur fram að dóttir Johns hafi veitt lög­reglu líf­sýni af fúsum og frjálsum vilja. Kom erfða­efnið heim og saman við erfða­efni sem fannst á líki stúlkunnar, en henni hafði verið nauðgað áður en hún var myrt. Þetta var svo stað­fest með ó­yggjandi hætti þegar lög­reglu­menn fengu leyfi til að grafa líkams­leifar Johns upp.

John gegndi her­þjónustu skammt frá heimili Candice um það leyti sem hún var myrt, en var rekinn úr hernum árið 1961 eftir að hafa ráðist á konu og veitt henni á­verka.

Um­fangs­mikil leit var gerð að Candice á sínum tíma og gekk hún ekki þrauta­laust fyrir sig. Þrír leitar­menn létust þegar þyrlu sem þeir voru í var flogið á raf­magns­línur.