Hátíðarmessugestir Hallgrímskirkju og Dómkirkjunnar eiga von á glaðningi í dag. Í tilefni páskadags hafa kirkjurnar tvær, ásamt Nóa Síríus, tekið höndum saman og munu gestir verða útleystir með páskaeggjum við messulok.

„Allir kirkjugestir munu fá páskaegg númer fjögur frá Nóa á leiðinni út úr kirkju,“ segir Auðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Síríus í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að ákveðið hafi verið að ráðast í þetta tilraunaverkefni í kjölfar umræðu um dræma kirkjusókn Íslendinga.

„Við ákváðum, fyrst það voru að koma páskar, að hafa samband við kirkjurnar til þess að kanna hvort áhugi væri fyrir þessari tilraun.“

Segir hann kirkjurnar hafa tekið vel í hugmyndina.

„Já, þeim leist mjög vel á þetta og eru á því að þetta gæti aukið aðsókn í páskadagsmessu.“

Fólk geti því mætt til messu klukkan 11 og eftir það farið heim að maula súkkulaðieggið sitt í rólegheitum.

„Ég myndi segja að erfitt væri að verja páskadeginum betur en það,“ segir Auðjón að lokum.