Samkvæmt heimildum Der Spiegel mun þýska leyniþjónustan auka eftirlit með hegðun þingmanna flokksins Alternative für Deutschland, AfD.

Ákvörðunin var tekin á grundvelli þess að stjórnvöld í Þýskalandi óttast að meðlimir flokksins ali á hatri sem ógni lýðræði landsins. Talsmaður þýsku leyniþjónustunnar vildi ekki staðfesta fregnirnar þegar leitað var eftir viðbrögðum.

Með ákvörðuninni er ljóst að stjórnvöld í Þýskalandi myndu vakta öll samskipti starfsmanna AfD, en að sögn Stefan Keuter sem situr á þingi fyrir hönd flokksins, mun AfD berjast gegn ákvörðuninni ef setið verður um þingmenn hans.

AfD hefur barist gegn því að landamærin séu opnuð fyrir flóttamönnum og gegn Evrópusambandinu og byggir á hugmyndum öfgahægri stefnu. Þá hefur flokkurinn gefið sig út fyrir að vera á móti íslamsvæðingu vestrænna ríkja.

Flokkurinn sem var stofnaður árið 2013 átti góðu gengi að fagna í þingkosningunum árið 2016 þegar fjölmargir kjósendur sem voru ósáttir við þá stefnu Angelu Merkel að opna landamærin fyrir milljónum flóttamanna kusu hinn nýja flokk. Heilt yfir fékk flokkurinn tæplega sex milljónir atkvæða og 94 sæti af 594 í kosningunum og sæti á öllum héraðsþingum.

Stefna AfD um að vera mótfallinn aðgerðum stjórnvalda til að hindra frekari útbreiðslu kórónaveirunnar hefur dregið verulega úr fylgi f lokksins að undanförnu. Búist er við að fylgið hrynji í þingkosningunum sem eru á dagskrá síðar á þessu ári.

Öfgasinnaðir stuðningsmenn AfD hafa verið dæmdir fyrir ódæðisverk á undanförnum mánuðum. Stephan Ernst sem vann sem sjálfboðaliði fyrir flokkinn var á dögunum dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Walter Lübcke, þingmanni Kristilegra demókrata.

Þá var maður dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir áramót fyrir skotárás í samkunduhúsi gyðinga í Þýskalandi. Maðurinn sýndi frá árásinni í beinni og viðurkenndi við yfirheyrslur að aðhyllast stefnu öfgahægri flokka