Vladimír Pútín forseti Rússlands er sagður standa að baki tilraun til að ráða tjetjenskan stjórnarandstæðing af dögum í bænum Gävle. Þetta kemur fram í leyniþjónustuskýrslu sem fjallað er um í sænska sjónvarpsþættinum Uppdrag granskning. Kremlarstjórn neitar hvers konar tengslum við málið segir Sænska ríkissjónvarpið.

Fram kemur í frétt á vef Sænska ríkissjónvarpsins, svt.se, að Tumso Abdurachmanov sem sé einn harðasti gagnrýnandi stjórnvalda í Tjetjeníu hafi haldið uppi andófi gegn þeim frá íbúð sinni í Gävle. Hann hafi í fyrra verið búinn að afla sér hundruð þúsunda fylgjenda í gegn um samfélagsmiðla. Hann hafi verið óafvitandi um að ókunnir menn fylgdu honum eftir og kortlögðu líf hans og ferðavenjur í Svíþjóð.

Segir á á svt.se að dag einn hafi Abdurachmanov vaknað við að maður réðst að honum með hamri. Eftir að hafi fengið nokkur högg hafi honum tekist að yfirbuga árásarmanninn. Hann hafi hringt í vin og beðið hann að gera lögreglu og lækni viðvart en síðan tekið til við að yfirheyra hinn óboðna gest í beinni útsendingu á Instagram.

Áfram segir svt.se að lögreglan hafi séð að um alvarlegt mál væri að ræða og haft samband við Säpo.

Grunur vaknaði um framandi öfl í Gävle

„Ástæðan fyrir því að við tókum málið yfir var grunur um að framandi öfl gætu legið að baki þessari morðtilraun,“ er haft eftir Daniel Stenling, yfirmanni gagnnjósnadeildar Säpo.

Að því er kemur fram á vef svt.se voru maður og kona dæmd fyrir þátt sinn í tilræðinu. Árásarmaðuinn sjálfur, Ruslan Mamajev, hafi verið dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir morðtilraun og konan sem þá var í sambandi við Abdurachmanov, hafi fengið átján mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa aðstoðað Mamajev að komast inn í íbúð Abdurachmanovs. Þau verða síðan bæði útlæg frá Svíþjóð.

Þá liggi þriðji maðurinn, Tjetjeni að nafni Imran Chaschanov, undir grun hjá Säpo um að vera einn af heilunum að baki árásinni. Hann sé horfinn og sé nú eftirlýstur.

Niðurstaðan hjá Säpo er sögð vera sú að stjórnvöld í Tjetjeníu hafi pantað árásina. Upplýsingamálaráðherra landsins, Achmed Dudaev, hafi neitað að svara spurningum Uppdrag gransknings frågor.

Höfum virkilega ekkert með þessi morð að gera

Í leynilegri skýrslu sem stafar frá evrópskri leyniþjónustu og Uppdrag granskning kveðst hafa undir höndum er sagt vera rakið hverjir standi að baki árásinni í Gävle og á fleiri gagnrýnendur tjetjenskra stjórnvalda í álfunni.

Í skýrslunni er ábyrgðin á tjetjensku morðunum og morðtilraununum, þar á meðal í Gävle, sögð vera hjá Vlamidir Putin sem æðsta manni Rússlands. „Fullyrt er að svo lengi sem forseti Tjetjeníu, Ramzan Kadyrov, gangi ekki of langt láti Putin hann vera áfram,“ segir í frétt svt.se.

Sjálfur kveðst Tumso Abdurachmanov ekki velkjast í vafa um hver standi að baki árásinni á hann. Það sé stjórnin í Tjetjeníu.

Sem fyrr segir hafna rússnesk stjórnvöld hvers konar afskiptum af málinu. „Við höfum virkilega ekkert að gera með þessi morð á fólki í löndum Evrópu,“ segir svt.se að komi fram í svari fjölmiðlafulltrúa Putins sem merkt sé forsetanum sjálfum.

Hér má sjá brot úr þættinum.