Það voru sennilega ekki ýkja margir sem veittu því athygli þegar hinn áttræði Hody Buford Childress lést þann 1. janúar síðastliðinn. Childress var búsettur í smábænum Geraldine í Alabama í Bandaríkjunum og snerti líf margra bæjarbúa – án þess að þeir vissu.
Washington Post fjallaði um góðverk Childress sem síðustu tíu ár ævi sinnar greiddi fyrir lyf þeirra sem ekki höfðu efni á þeim. Brooke Walker, eigandi Geraldine Drugs, lyfjaverslunar í umræddum bæ, ljóstraði þessu upp eftir andlát Childress.
Walker segir að fyrir um áratug hafi Childress komið inn í apótekið og spurt hvort það kæmi oft fyrir að fólk gæti ekki greitt fyrir lyfin sín. „Ég sagði við hann að því miður kæmi það býsna oft fyrir,“ segir Walker.
Að svo búnu rétti Childress honum hundrað dollara seðil, fjórtán þúsund krónur á núverandi gengi, og sagði honum að taka peninginn til hliðar. Næst þegar einhver gæti ekki borgað fyrir lyfin sín skyldi hann nota peninginn og greiða fyrir þau með seðlinum.
Walker segir að Childress hafi lagt á það ríka áherslu á að segja engum hvaðan peningurinn kæmi. Þetta væri gjöf frá Guði, ef einhver myndi spyrja. Í hverjum mánuði eftir þetta kom Childress – eða einhver honum tengdur – með hundrað dollara seðil og er óhætt að segja að peningurinn hafi komið að góðum notum.
Í umfjöllun Washington Post er tekið fram að Childress hafi ekki verið neinn stóreignamaður en unað sáttur við sitt.
Dóttir Childress, Tania Nix, segist ekki vita hvers vegna faðir hennar tók þessa ákvörðun á sínum tíma. Það gæti þó haft eitthvað með það að gera að móðir hennar og eiginkona Childress glímdi við veikindi á sínum tíma og setti hár lyfjakostnaður strik í reikninginn hjá fjölskyldunni.
Eftir að góðverk Childress spurðist út hafa íbúar bæjarins ákveðið að halda þessari hefð á lofti. Hefur verið stofnaður sjóður í nafni Childress sem hefur einmitt það hlutverk að létta undir með þeim sem geta illa greitt fyrir lyf sín.