Skýrsla sem samgöngunefnd Bandaríkjaþings lét vinna vegna mannskæðra flugslysa þar sem Boeing 737 Max-farþegaþotur brotlentu var opinberuð í dag.

Slysin tvö sem urðu í flugum á Max-vélunum á vegum Lion Air og Ethiopian Airlines en 346 létust í slysunum tveimur.

Fram kemur í skýrslunni að vanræksla Boeing við að deila tæknilegum upplýsingum hafi verið stór hluti þess að flugslysin áttu sér stað.

Þá fær eft­ir­lit­s­kerfi banda­rískra stjórn­valda vænan skerf af gagnrýni. Sömuleiðis er fett fingur út í það hversu mikil áhrif forsvarsmenn Boeing hafa inn­an valdakjarna Flug­mála­stofn­un­ar Banda­ríkj­anna.

Í skýrslunni segir að mikill þrýst­ing­ur hafi myndast innanhúss hjá flugvélaframleiðandanum og unnið hafi verið í miklum flýti við að koma MAX-vélunum á markað þar sem yfirvofandi var hörð samkeppni frá evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus.

Peter DeFazio, formaður samgöngunefndar Bandaríkjaþings, segir að hagnaðarhvöt hafi orðið öryggissjónarmiðum yfirsterkari og það sé afar ámælisvert.

DeFazio segir sérstaklega ámælisvert að forráðamenn Boeing og Flugmálastofnunar Bandaríkjanna hafi ekki brugðist við með lagfæringum á öryggiskerfi flugvélanna á þeim tíma sem leið á milli flugslysanna tveggja.