Það stirnir á hrímað hraunið í Svartsengi í morgunbirtunni. Á leið í Rannsóknar -og þróunarsetur Bláa Lónsins sem er staðsett í hrauninu eru blaðamanni og ljósmyndara ljós þau lífsgæði sem hljóta að felast í því að starfa í þessu fallega umhverfi.

Það kemur líka seinna í ljós að þeir vísindamenn sem starfa á setrinu kunna vel að meta að keyra til vinnu og eiga þennan tíma með sjálfum sér á brautinni. Þó ekki sé alltaf stillt og ægifagurt útsýni eins og einmitt þennan dag.

Setrið er lágreist og látlaus bygging í miðri dramatískri náttúrunni og fáa grunar það metnaðarfulla vísindastarf sem þar fer fram og teygir sig um allan heim.

Áratuga rannsóknir

Inni í setrinu rannsaka vísindamenn örþörunga (blágrænþörunga), kísil og virk efni úr jarðsjónum sem kemur af yfir 2000 metra dýpi úr jarðhitasvæðinu í Svartsengi. Þeir hafa þróað sjálfbærar og náttúrulegar aðferðir til að rækta bæði þörunga og vinna sölt og kísil. Blágrænþörungar eru á meðal elstu lífvera jarðar og hafa rannsóknir leitt í ljós virkni þeirra gegn öldrun húðar. Þótt niðurstöður rannsókna séu mjög athyglisverðar eru vísindamenn, á Íslandi og úti í heimi, þess fullvissir að yfirborðið hafi bara rétt verið gárað. Leyndardómar blágrænþörunga sem eiga hlut í þróun lífs á jörðu eru enn miklir.

Það er aldarfjórðungur síðan Ása Brynjólfsdóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins, þá nýútskrifaður lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands, hóf störf hjá fyrirtækinu sem þá var nýstofnað af Grími Sæmundsen lækni. Hún hafði unnið lokaverkefni á sviði náttúruefna og fannst þetta áhugavert verkefni.

Ása Brynjólfsdóttir í Bláa lóninu með þörungaræktun að baki.

Sterk sýn og eldmóður

„Það var ekkert hér á þessum tíma. Bara gamli baðstaðurinn og hraunið eins langt og augað eygði. Ég þekkti ekki Grím áður en ég fór að vinna hjá Bláa Lóninu. Orðrómur um lækningarmátt jarðsjávarins í Bláa lóninu hafði vakið áhuga hans og því vildi hann rannsaka lónið og lífríki þess. Mér fannst þetta mjög spennandi og það er í raun magnað nú þegar ég hugsa aftur til þessa tíma hvað Grímur hafði sterka sýn og eldmóð. Því það var ekkert augljóst þá að þetta myndi ganga vel,“ segir Ása og kímir.

Hélt fólk að það yrði ekkert úr þessu?„Já, ég hugsa það. Ég fór hins vegar beint í að stýra rannsóknum og vöruþróun. Grímur hafði þá sýn að áherslan ætti að vera á öflugt rannsóknarstarf. Og þannig hefur það verið alla tíð. Vísindarannsóknir og þróunarstarf eru stoðir fyrirtækisins og hafa ásamt lækningastarfsemi átt mikinn þátt í að koma því á þann stað sem það er í dag.“

Ása hófst handa við þróun fyrstu vörunnar sem notuð var í húðlækningarmeðferðir lónsins. Fyrsta varan kom á markað árið 1995, kísilmaski sem inniheldur einstök efni jarðsjávarins. „Þetta er enn ein af okkar mest seldu vörum, hvíti kísillinn sem menn voru áður vissir um að gerðu þeim gott og er nú sannað. Fólk tók kísilinn úr botni lónsins og bar hann á sig. Nú getum við með betri hætti nálgast kísilinn og framleiðum hann með náttúrulegum hætti.“

Rannsóknar og þróunarsetur Bláa lónsins er staðsett í hrauninu í Svartsengi og þar eru virk efni Bláa lónsins framleidd með náttúrulegum hætti. Kísill, sölt og þörungar. Efnin eru grunnurinn í húðvörum Bláa lónsins.

Rækta örþörunga

Rannsóknarstarf Gríms og Ásu vatt upp á sig. Í dag eru stundaðar fjöldi rannsókna á lækningamætti jarðsjávarins, lífvirkni innihaldsefna og vistkerfisrannsóknir. Lækningamátturinn var staðfestur með klínískum rannsóknum og nýjar rannsóknir gefa vísbendingar um að efni sem þörungar í Bláa lóninu framleiða hafi áhrif á ónæmiskerfið og minnki bólgur Psóríasis-sjúklinga. Framundan eru enn frekari rannsóknir á bólguhemjandi virkni þörunganna.

Framtíðin á eftir að leiða í ljós hvort fyrirtækið komi til með að framleiða lyf sem gagnast fólki með húðsjúkdóma.

„Fyrstu árin unnum við að því að rannsaka þessar sögur sem fólk sagði af bata sínum. Það greindi til dæmis frá því að það skipti máli að bera kísilinn á húðina og lýstu því að húðin yrði mýkri og greri hraðar. Við rekum meðferðarstöð fyrir psóríasis-sjúklinga og fólk vildi geta tekið kísilinn með sér heim. Læknisstarfsemin ýtti undir vöruþróunina. Áskorun okkar var þessi: Hvernig ætluðum við að koma óspilltum áhrifum náttúruauðlindarinnar heim til fólks? Við ákváðum að vera trú upprunanum og halda í hreinleikann. Við höfum ekki haggast í þeirri afstöðu okkar öll þessi ár.

Vísindamönnum á rannsóknarsetrinu finnst það ævintýri líkast að vinna í stórbrotinni náttúrunni. Út um gluggann horfa þau yfir hraunið.

Umhverfisvæn nýjung

Framleiðsluferli okkar líkja eftir þeim aðstæðum þar sem kísill og þörungar verða til í náttúrunni. Örþörungar sem koma úr jarðsjó Bláa Lónsins eru mikilvæg lífvirk efni í Bláa Lóns snyrtivörunum. Þeir hafa frá upphafi verið ræktaðir í ljóstillífunarkerfum þar sem þeir binda koldíoxíð og breyta honum í lífmassa og súrefni. Þörungarnir eru fóðraðir á koldíoxíðríku jarðvarmagasi sem annars færi út í andrúmsloftið. Rannsóknir Bláa Lónsin leiddu til þess að hægt er að nota jarðvarmagas óbreytt og án hreinsunar sem er byltingarkennd og hrein umhverfisvæn nýjung,“ segir Ása frá.

„Við unnum með stórum dreifingaraðila og vörunum var dreift í gegnum apótek í Þýskalandi á upphafsárum okkar. Þannig komumst við í tengsl við þarlenda vísindamenn og húðlækna sem hafa unnið með okkur síðan þá að lífvirknirannsóknum á vörum okkar. Þessir samstarfsaðilar hafa sérhæft sig í öldrun húðarinnar og áhrifum umhverfisins á hana. Það hefur vakið sérstakan áhuga þeirra hvernig Bláa Lóns þörungarnir virka gegn öldrun húðar og vernda kollagenforða hennar.

Kollagen er burðarefnið í húðinni okkar og það minnkar um 1% á ári frá tvítugsaldri. Því meira sem við erum í sólinni því meira brotnar það niður. Þýsku samstarfsaðilarnir hafa skoðað hvernig þörungarnir örva nýmyndun á kollageni og verji húðina fyrir niðurbroti á kollageni sem verður fyrir tilstuðlan sólarinnar. Þetta var upphaflega skoðað í frumulíkönum og það komu mjög spennandi niðurstöður úr þeim rannsóknum.

Í kjölfarið var ákveðið að taka þetta lengra og þróa vöru með þörungum og fara í klínískar prófanir.

Byggt á niðurstöðum rannsóknanna fengum við einkaleyfi á nýtingu á þörungunum í snyrtivörur og lyf. Afrakstur þessa rannsókna eru meðal annars ný andlitsolía, Algae Bioactive Concentrate, sem vinnur gegn öldrunareinkennum húðar.“

Brautryðjandi

Örþörungarnir eru ræktaðir á jarðvarmagasi og jarðsjó. Það er líka mikið sjónarspil að horfa á þá renna í upplýstum glerpípum í setrinu. „Við erum að nýta staðbundna strauma frá jarðvarmavinnslu: jarðsjó, gufu, gas og endurnýjanlega raforku. Þetta er eini staðurinn þar sem örþörungar eru ræktaðir með þessum hætti til notkunar í snyrtivörur. Jarðgasið inniheldur mjög hátt hlutfall koldíoxíðs og hentar því vel í þessa vinnslu,“ útskýrir Ása.

„Þegar við vorum að byrja var engin græn bylting en þrátt fyrir það hefur sjálfbærni alltaf verið í orðabókinni okkar og við höfum haft að markmiði að bera virðingu fyrir náttúrunni, vernda auðlindirnar og efniviðinn og sporna gegn sóun. Við höfum haft svokallaða græna efnafræði að leiðarljósi, það er ekki auðveldasta leiðin en sú eina sem kom til greina í okkar huga“, segir Ása.

„Við hefðum getað valið aðrar leiðir sem hefðu kostað minna og verið fljótlegri. Til dæmis með því að nota efnavörur sem fella kísilinn út en við vildum leyfa þessu að gerast á náttúrulegan hátt og vernda gæðin og hreinleikann. Enda er það svo að kísillinn er einn besti andlitshreinsir sem þú getur fengið. Hann hefur svo mikla upptökueiginleika, og ef við hefðum farið aðra leið þá værum við hrædd um að missa þá eiginleika. Hann hreinsar óhreinindi húðar og sýna rannsóknir að kísillinn styrkir efsta varnarlagið og jafnar áferð húðar.“

Ása segir að vísindamenn við setrið vinni með hópi vísindamanna við háskóla og rannsóknarsetur víða um heim. „Rannsóknirnar fara yfir svo mörg og ólík svið, og höfum við því lagt upp úr því að starfa með sérfræðingum innanlands og erlendis. Við höfum átt gott samstarf við háskólana hér heima. Það má til gamans geta þess að nýlega útkskrifuðust tveir doktorsnemar við læknadeild HÍ sem unnu verkefni sín í samvinnu við Landspítalann og Bláa Lónið. Einnig hefur fjöldi meistaranema unnið að lokaverkefnum sínum hér.“