Smáralindin mun ekki loka nema að rekstaraðilar búðanna í verslunarmiðstöðinni komi sér saman um þá ákvörðun að sögn markaðsstjóra Smáralindar.

Ikea ákvað í gær að loka verslun sinni vegna útbreiðslu kórónaveirunnar á Íslandi og eru sífellt fleiri fyrirtæki að loka tímabundið á meðan faraldurinn gengur yfir.

Aðspurð út í framtíðaráhorf Smáralindar sagði Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar að það yrði ákvörðun sem yrði tekin að ósk verslananna.

„Við reynum að meta stöðuna á hverjum degi en þetta er í höndum rekstraraðilanna í Smáralind. Flestar verslanir hafa stytt opnunartíma sína en einhverjar búðir eru lokaðar. Við viljum ekki taka ákvörðun fyrir þau, frekar leyfa verslunum að taka þessa ákvörðun,“ sagði Tinna, aðspurð hver afstaða Smáralindarinnar væri.

„Ef þau vilja hafa opið munum við hafa opið á meðan það er enn rökrétt. Það eru ennþá gestir að heimsækja Smáralindina enda með vinsæla matvörubúð, lyfjaverslun og aðrar búðir.“