„Við erum fyrst og fremst að ýta undir fjölbreytileika en líka að ekki sé farið inn á þann markað sem er fyrir,“ segir Friðrik Sigurbjörnsson, formaður bæjarráðs í Hveragerði, um reglur um torg- og götusölu í bænum.

Er bæjarráð samþykkti í síðustu vikur reglurnar bókaði fulltrúi Okkar Hveragerðis, Njörður Sigurðsson, athugasemd við það að við úthlutun leyfa yrði meðal annars byggt á kröfu „um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu“. Slíka ákvörðun ætti að byggja sem mest á hlutlægu mati.

„Mat á hvort rekstur sem umsækjendur um götu- og torgsölu ætla að reka í söluvögnum sé viðbót við vöruúrval sem er fyrir í bænum og gerðar séu kröfur um fjölbreytileika og mismunandi framboð á þjónustu í bæjarfélaginu getur ekki annað en verið huglægt,“ bókaði Njörður.

„Hinn frjálsi markaður mun líklega stýra vöruframboði betur en stjórnendur eða stjórnmálamenn hjá Hveragerðisbæ,“ bókaði Njörður sem þó samþykkti nýju reglurnar.

Friðrik sem fer fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarráði, segir reglurnar eiga fyrirmynd í öðrum sveitarfélögum.

„Við viljum geta boðið upp á sem fjölbreyttasta möguleika og að þeir sem vilja koma með hvers kyns vagna hafi það í huga,“ svarar Friðrik spurður hvers vegna úrvalið í söluvögnum verði ekki látið í vald markaðsafla.

Þetta ráði þó ekki úrslitum. „Fyrst og fremst á þetta að ýta undir það að fólk sem kemur með vöru og þjónustu inn í sveitarfélagið horfi til þess að bjóða eitthvað nýtt,“ útskýrir hann.

Friðrik segir að sótt hafi verið um leyfi fyrir vagn með heilsuvefjur og annan með kebab. Í boði séu tvö leyfi í miðbænum og eitt við Hamarshöllina. Horft sé til margra þátta.

„Við horfum til þess að fyrstur kemur, fyrstur fær. Einnig til gæða, fyrri reynslu auk fjölbreytileikans. Þetta er til að gefa okkur dálítið svigrúm til að velja og hafna.“

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis.
Friðrik Sigurbjörnsson, formaður bæjarráðs Hveragerðis.